149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:36]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég leyfi mér að koma hingað upp og fagna því sérstaklega að þessi tillaga sé kölluð aftur til hæstv. fjárlaganefndar. Ég lýsi yfir miklum áhyggjum varðandi rekstur og starfsemi Íslandspósts. Ég tel brýnt að öll nefndin — ég vona að þetta verði ekki eitthvert meirihlutadæmi, heldur að haft verði samráð þvert á flokka um þetta mikilvæga fyrirtæki sem ég hef miklar áhyggjur af. Ég vonast til þess og veit að undir forystu frábærs formanns fjárlaganefndar verður málið rannsakað gaumgæfilega. Ég tel brýnt að fjármálaráðuneytið komi líka að málinu og svari ákveðnum spurningum hvað þetta fyrirtæki varðar. Ástandið hjá Íslandspósti er mjög alvarlegt og skiptir miklu máli að þingheimur afgreiði það mál vel frá sér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)