149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

gjaldskrárhækkanir.

[10:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Í fjárlagafrumvarpinu sem verið var að ræða birtist enn meira af því sem mér hefur þótt vera eitt það sem einkennir þessa ríkisstjórn og það hvernig hún nálgast málin, þ.e. að hækka gjöld og finna upp ný gjöld. Og ef hlutirnir eru ekki skattlagðir eru þeir bannaðir. Krónutöluhækkanirnar, sem við förum að ræða núna samhliða fjárlögunum, eru líklega um 150 talsins. Þar er um að ræða hækkanir upp á þúsundir króna, í sumum tilvikum jafnvel tugþúsundir. Með því er verið að hverfa frá stefnu sem mótuð var fyrir fáeinum árum síðan, þegar hæstv. fjármálaráðherra var raunar í því hlutverki sem hann er enn, og átti að leiða af sér að smátt og smátt drægi úr álögum á almenning en fyrst og fremst að ríkið væri ekki leiðandi í verðhækkunum í upphafi árs og því að viðhalda sjálfkrafa verðbólgu, ef svo má segja.

Svo eru það bönnin og neyslustýringin sem virðast vera leiðarljós hjá ríkisstjórninni á mjög mörgum sviðum. Það eru ótal hugmyndir um hvað megi banna næst, hvort banna eigi nagladekk, banna hefðbundna bíla, banna plast o.s.frv. Hæstv. ráðherra var ekki hrifinn af svokölluðum sykurskatti en tekur á sama tíma þátt í að búa til nýjan slíkan skatt á neytendur, kolefnisgjald, refsiskatt sem er til þess ætlaður að refsa fólki fyrir að komast leiðar sinnar. Ég á erfitt með að sjá hvernig það gengur upp að vera andsnúinn sykurskattinum en reyna svo að finna upp nýja neyslustýringarskattana.

Spurningin er tiltölulega einföld og almenn: Er ekkert af þessum áformum og þessum hugmyndum um ný bönn, nýja skatta og nýja gjaldtöku hjá almenningi sem vekur efasemdir hjá hæstv. ráðherra?