149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

gjaldskrárhækkanir.

[10:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég átti nú síður von á því að hæstv. fjármálaráðherra héldi hér mikla varnarræðu um neyslustýringu. Það er þá kannski til marks um breytt viðhorf á þeim bænum. Ég vil þó ítreka spurninguna sem var eiginlega hugsuð til að gefa hæstv. ráðherra tækifæri til að senda félögum sínum í ríkisstjórninni skilaboð um að það séu takmörk fyrir því hvað Sjálfstæðisflokkurinn geti sætt sig við mikla skattlagningu og margar nýjar og íþyngjandi kvaðir á fólk. Ráðherrann nýtti ekki það tækifæri í fyrra andsvari heldur varði nýju neyslustýringarstefnuna. Kannski verður það bara niðurstaðan.

Ég ítreka samt spurninguna: Er ekkert í öllum þessum breytingum, þessum hækkunum, þessum nýju boðum og bönnum og þessum gjöldum og áformum um slíkt til framtíðar sem hæstv. ráðherra hefur efasemdir um? Gæti hann nefnt eitt atriði sem hann vildi kannski velta meira fyrir sér og spá í hvort lækka eigi þær álögur á almenning eða draga úr íþyngjandi reglum?