149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

forritunarverkefni í grunnskólum.

[10:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn leggur mikla áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun. Við sjáum að framlög til þessara málaflokka hækka á milli ára um 16,3%. Verið er að setja gríðarlega metnaðarfulla stefnu af stað á vegum ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um að efla þennan málaflokk.

Nú á líka að auka endurgreiðslur er varða nýsköpun og þróun í frumvarpi sem fjármála- og efnahagsráðherra er lagður af stað með.

Varðandi þetta verkefni erum við bara mjög hlynnt því. Við viljum að það haldi áfram. Búið er að fjárfesta heilmikið í því og við munum sjá til þess að sú mikla fjárfesting sem við erum búin að setja í það verkefni geti haldið áfram. Við vitum að það er mikil ánægja með það í grunnskólanum og það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns, þetta er einföld tölva. Hún kennir forritun og hjálpar verulega til við það. Það er því ekki á stefnuskrá þessa ráðherra að hætta við þetta verkefni.