149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

hækkun til öryrkja.

[10:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þau skilaboð sem hafa verið send út í samfélagið upp á síðkastið með nýju fjárlagafrumvarpi hafa líklega ekki farið fram hjá neinum. Þar segir að hækka eigi laun eða afkomu öryrkja um 3,4% og núna með breytingartillögu um 3,6%.

Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem þess meistara í lögum sem hann er og vísa í 69. gr. almannatryggingalaga þar sem talað er um bætur almannatrygginga. Þar segir í fyrri málslið:

„Bætur almannatrygginga […] skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni.“

Í fyrsta lagi: Hvað þýðir þetta, hæstv. fjármálaráðherra? Þýðir þetta ekki að það er lögbundið samkvæmt 69. gr. að breyta kjörum öryrkja árlega?

Í öðru lagi stendur í síðari málslið:

„Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun …“ — það stendur ekki: má taka mið af eða hugsanlega eða innan gæsalappa, og/eða, eða með kommu, heldur: „Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig eru þessar hækkanir, eða leiðrétting, reiknaðar út? Er verið að fylgja 69. gr. almannatryggingalaga sem kveður skýrt á um það? Það er ekki eins og þessi grein sé innan gæsalappa eða nokkur einasti vafi um það sem kemur þar fram. Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað hefur hann um þetta að segja? Og pínulítil spurning: Hvað hækkaði launaþróun í landinu á síðasta ári?