149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

hækkun til öryrkja.

[10:49]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er nú þekkt fyrir að vera Inga tilfinninga og ég brast næstum því í grát, þetta var svo sorglega lélegt svar. Það var í rauninni farið allt aftur að hruni þegar var þó verið að reyna að fylgja lögunum hvað lýtur að síðari málslið 69. gr. laga þar sem segir að aldrei eigi að hækka bætur minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Staðreyndin er allt önnur í dag, hæstv. fjármálaráðherra.

Í þessari grein segir að taka skuli mið af launaþróun sem mér skilst að sé um 11%. Að blanda saman þessum 2,9 milljörðum sem fara ekki í beina hækkun á kjörum öryrkja er náttúrlega bara — ég veit ekki eiginlega hvaðan hæstv. fjármálaráðherra fær þá hugmynd að gera það. Ég bara skil það ekki. Staðreyndin er einfaldlega sú að það er verið að leiðrétta kjör öryrkja ranglega.

Í lokin, fyrst ég er nú komin hérna í stuð, pínulítil spurning: Veit hæstv. fjármálaráðherra hversu margir tugir þúsunda Íslendinga fá útborguð laun sem eru jafnvel undir 250.000 kr. á mánuði?