149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

dvalarleyfi barns erlendra námsmanna.

[10:52]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Filip Ragnar verður eins árs eftir tvo daga, þann 24. nóvember. Hann fæddist á Íslandi og hefur búið hér alla sína ævi með foreldrum sínum, þeim Isidoru og Dusan, sem undanfarin þrjú ár hafa stundað hér háskólanám. Móðir Filips Ragnars er nú að bæta við sig íslenskunámi en hún hefur áður lokið BA-prófi í Norðurlandafræðum og hefur starfað við að þýða norsku fyrir stjórnvöld í m.a. Svartfjallalandi. Hún hefur með öðrum orðum fjárfest verulega í þeirri þekkingu og er nú búsett hér ásamt fjölskyldunni sem þannig auðgar íslenskt samfélag. Eða hvað?

Útlendingastofnun leit svo á að þetta væri ekki nægjanlegt fyrir þennan litla dreng, Filip Ragnar. Útlendingastofnun hefur lagt stein í götu þessarar fjölskyldu — eða eigum við kannski að segja bjarg? Hinn brátt eins árs gamli drengur fær nefnilega ekki leyfi til dvalar hér með fjölskyldunni sinni þar sem íslensk stjórnvöld hafa beitt þrengstu, mögulegu skýringu á ákvæðum útlendingalaga og jafnvel bætt í.

Nú ætla ég að leyfa mér að fara aðeins út í lagatæknilega hluti í fyrirspurn minni til hæstv. dómsmálaráðherra en ég tel það alveg óhætt, enda er ráðherra löglærð og þar að auki yfir málaflokknum síðastliðin tvö ár. Í 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga, en ákvæðið fjallar almennt um dvalarleyfi fyrir börn, segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er að víkja frá skilyrðum ákvæðis þessa“ — um tegund náms foreldra — „ef sérstaklega stendur á enda krefjist hagsmunir barnsins þess.“

Á þessu var byggt við umsóknina enda alveg ljóst að drengnum yrði ómögulegt að dvelja á erlendri grundu, fjarri fjölskyldu, á meðan foreldrarnir lykju námi. Því vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Telur hún að í þessu tilviki hafi Útlendingastofnun farið út fyrir valdsvið sitt, mögulega rangtúlkað vilja löggjafans (Forseti hringir.) eða a.m.k. ekki farið eftir skýru lagaboði um hagsmuni barns þegar tekin var sú ákvörðun að synja litla drengnum, sem fæddur er hér á landi, um dvalarleyfi með foreldrum sínum?