149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

mál pólsks talmeinafræðings.

[11:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og það er sérstaklega mikilvægt að fá tækifæri til að ræða þetta mál. Hér erum við að tala um anga af þeirri tilveru sem við höfum búið við á Íslandi lengst af, sem er í raun og veru samfélag þar sem hefur fyrst og fremst verið ein menning og eitt tungumál. En sem betur fer erum við nú að fara inn í samfélag þar sem fjölmenning er viðurkennd og eftirsóknarverð. Við þurfum í öllum kimum samfélagsins að gera okkur grein fyrir því og aðlaga, hvort sem það er regluverk, lög, reglugerðir eða framkvæmd, að þeim veruleika og þeim skýra vilja, ekki bara þeirrar sem hér stendur, sem er sem betur fer ekki upphaf og endir alls í þessum efnum, heldur samfélagsins í heild. Það þarf ítrekaða stefnumótun, bæði á vettvangi sveitarfélaga og ríkis, um að við viljum vera fjölmenningarsamfélag og við viljum að það endurspeglist í öllum þessum þáttum.

Hvað varðar þetta tiltekna mál sem er kveikjan að því sem hv. þingmaður spyr mig um þá hefur komið fram í máli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, og raunar kom það fram í ívitnaðri frétt, að hún hefur í huga að láta fara fram lagasmíð í kringum þetta, þ.e. viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Mér skilst að það frumvarp sé komið nú þegar í samráðsgáttina og snertir þetta að hluta.

Hér er full ástæða til, og raunar ekki bara þetta tilefni, að skoða þetta sérstaklega, bæði að því er varðar lagaumbúnaðinn sem undir mitt ráðuneyti heyrir en ekki síður reglugerðir og framkvæmdina.