149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

mál pólsks talmeinafræðings.

[11:04]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það er gott að það verði ekki mótspyrna við þetta mál þar. En reyndar vil ég meina að hægt sé að breyta flestu af þessu bara í reglugerð, án þess að við þurfum að breyta lögum.

Mig langar að vekja athygli ráðherrans á einu öðru sem er krafan um kennitölu sem kann að virka rökrétt en er það ekki. Ef ég er t.d. menntaður næringarfræðingur og vil flytja til Íslands væri rosalega gott að vita hvort ég geti síðan unnið við þetta fag eða hvort ég þurfi að brúa bilið með einhverju öðru. En kerfið tekur ekki við umsóknum sem eru ekki með íslenska kennitölu. Það er leið út úr þessu. Það er hægt að veita svokallaðar utangarðskennitölur sem eru einmitt hugsaðar fyrir svona tilfelli. Gæti ráðherrann ekki einfaldlega beint því til sinna undirstofnana að í þeim tilfellum sem einhver sækir um og er ekki með íslenska kennitölu, fái hann úthlutað slíkri kennitölu í gegnum utangarðskerfið?

Það sem fólk gerir í dag er að það fer í banka, kaupir sér kennitölu á 15.000 kall, og bankinn hirðir gróðann, því bankinn borgar ekkert fyrir kennitöluna til ríkisins. Finnst henni þetta kerfi í lagi?