149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Mig langar að þakka sérstaklega fyrir þessa umræðu um lífeyrissjóðakerfið okkar. Umræðan um lífeyrissjóðakerfið einkennist oft af ótrúlegri fáfræði um eðli kerfisins, myndi ég segja í raun, styrk þess og meginkosti. Við erum með eitt sterkasta lífeyriskerfi í heimi, hvaða mælikvarða sem við notum. Ef við horfum á hlutfall þeirra greiðslna sem renna til lífeyrisþega frá lífeyrissjóðum annars vegar og hins vegar frá ríki erum við í fremstu röð. Þegar við horfum á ávöxtun kerfisins erum við í fremstu röð. Þegar við horfum á eignir kerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu erum við í fremstu röð og þegar við horfum á kostnað af rekstri kerfisins, þ.e. hagkvæmni þess, erum við líka í fremstu röð, þrátt fyrir ítrekaðar fullyrðingar um eitthvað allt annað, byggðum á mjög vafasömum samanburðarrannsóknum, oft bundnar við einn sjóð eða bara hluta af rekstrarkostnaði þeirra og svo mætti áfram telja.

Við þurfum að tala um þetta kerfi eins og það er og af einhverri innsýn inn í hvernig það virkar. Það er því miður allt of sjaldan gert, bæði í almennri umræðu og hér inni á þingi. Kostur söfnunarkerfisins sem við erum með er að við sem þjóð þurfum ekki að hafa áhyggjur af öldrun þjóðarinnar. Það er til fyrir lífeyrisskuldbindingunni fram í tímann. Ríkissjóður þarf heldur ekki að hafa áhyggjur af öldrun þjóðarinnar því eldri borgarar, lífeyrisþegar framtíðarinnar, eru skattgreiðendur og verða skattgreiðendur. Það er ástæðan fyrir því að við skattleggjum ekki innborgunina, heldur þegar við tökum tekjurnar út. Þetta jafnar afkomu ríkissjóðs. Þetta auðveldar okkur að reka hér samneysluna um alla eilífð, óháð aldurssamsetningu þjóðarinnar hverju sinni.

Það er því mikilvægt að við ræðum þetta kerfi af einhverri innsýn í það og þekkingu á því og leggjum okkur fram um það, sérstaklega við sem hér sitjum og fáum borgað fyrir það, að setja okkur inn í málin, að við kynnum okkur kosti og galla lífeyriskerfisins. Þess vegna fagna ég þessari umræðu sérstaklega í dag.