149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Eitt af áhyggjuefnunum við lífeyrissjóðina eins og þeir eru reknir í dag er að skorta virðist á að þeir hafi eigandastefnu. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort sá sjóður þar sem hann á fulltrúa í stjórn, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, hafi mótað sér slíka stefnu. Ef ekki, hvort ætlunin sé að gera það.

Vegna þess sem ég minntist á hér áðan, hversu fyrirferðarmiklir lífeyrissjóðirnir eru á samkeppnismarkaði, þá er nauðsynlegt að lífeyrissjóðirnir komi sér upp eigandastefnu. Það hefur líka verið fundið að því, og vísir hagfræðingar hafa gert það, að það sé út af fyrir sig ekki gott hversu langt fulltrúar lífeyrissjóðanna eru frá stjórnum fyrirtækja sem þeir eiga ráðandi hlut í. Þeir eru ekki, eins og maður segir, aktífir hluthafar. Þeir eru meira sofandi hluthafar, eins og kallað er í útlöndum. Þetta er náttúrlega einn hlutur sem er mjög til vansa og þyrfti að skerpa á. Mig langar að heyra hug fjármálaráðherra til þess.

Annað er þátttaka sjóðanna í samfélagslegum verkefnum. Þá dvel ég sérstaklega við eitt málefni og það er að á sínum tíma þegar HS Orka var seld og lenti að hluta í erlendri eigu, þá sváfu lífeyrissjóðirnir á verðinum að mínum dómi. Nú er t.d. lag. Mér skilst að nú sé til sölu þó nokkur hlutur í þessu ágæta fyrirtæki og það væri gott að heyra hug fjármálaráðherra til þess og hvernig hann lítur á hlutverk lífeyrissjóðanna í því að taka þátt í samfélagslegum verkefnum. Þá er ég náttúrlega að tala um verkefnum sem standast ávöxtunarkröfu. Ég er ekki að tala um niðurgreiðslu á einhverjum félagslegum verkefnum. Gott væri að heyra frá hæstv. ráðherra hvaða stefnu hann sér og hvaða hugmyndir hann hefur í þessum efnum.