149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég get svo sem ekki svarað síðasta ræðumanni nógsamlega að öðru leyti en því að ég get ekki annað skilið en að ræðan sé eiginlega vísvitandi misskilningur á lífeyriskerfinu. Lífeyriskerfið er hugsað sem söfnunarlífeyriskerfi fyrir vinnandi fólk. Við greiðum af launum okkar og byggjum upp réttindi. Samtryggingin er einmitt mikilvægust fyrir það eitt, þess vegna viljum ekki sértryggingu, að við eigum þennan rétt óháð lífslíkum okkar. Við getum tekið út úr þessu kerfi réttindi langt umfram það sem höfum greitt inn til þess ef við erum langlíf. Það er auðvitað samtryggingin sem felst í því, t.d. gagnvart örorkubyrðinni, að ég geti áunnið mér örorkurétt út frá þátttöku minni á vinnumarkaði þó að ég detti út af vinnumarkaði langt fyrir aldur fram, langt fyrir lífeyristökualdur. Það gerir samtryggingarelementið í þessu kerfi svo mikilvægt. Því megum við alls ekki fórna.

Samspil lífeyriskerfisins og almannatrygginga er mjög mikilvægt í þessu og það er auðvitað gott að hafa í huga að lífeyrissjóðirnir greiða 65% af ellilífeyri og það hlutfall fer hækkandi. Það gerir okkur í þessum sal kleift að styrkja síðan almannatryggingahluta kerfisins sem er sameiginlega öryggisnetið okkar, m.a. gagnvart þeim hópum sem hafa haft litlar eða engar tekjur yfir ævina, að geta styrkt þá lífeyristekjur þess hóps, sérstaklega úr ríkissjóði. Það er gegnumstreymisþáttur kerfisins, mikilvægur þáttur þessa þriggja stoða lífeyriskerfis sem við höfum byggt hér upp.

Það sem mér finnst mikilvægt að hafa í huga er að lífeyrissjóðirnir eru sparnaður allra landsmanna, tekjuhárra og tekjulágra. Þeir eru ekki fyrir krumlur stjórnmálamanna til að seilast í til að greiða fyrir samfélagsverkefni. Lífeyrissjóðirnir eiga að hafa einn ásetning og hann skýran, að ná sem bestri ávöxtun fyrir sitt fé. Það er eina markmiðið. Lífeyrissjóðirnir geta auðvitað tekið þátt í innviðafjárfestingum ef þær skila ásættanlegri ávöxtun fyrir sjóðina, en við eigum ekki að ætla lífeyrissjóðunum neitt annað hlutverk en að sinna því hlutverki sem þeir eru bundnir af að lögum, að hámarka ávöxtun sína og skila sem hæstum lífeyri til sjóðfélaga sinna.