149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:49]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þingmönnum fyrir kröftuga þátttöku í umræðunni og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í þessu með okkur.

Mig langar að árétta spurningu um mögulega þátttöku lífeyrissjóðanna í innviðauppbyggingunni og mér dettur í hug þátttaka í vega- og samgöngumannvirkjum sem við fjöllum svo mikið um og okkur skortir fé til að fjármagna. Eins og fram hefur komið verður það að vera á forsendum lífeyrissjóðanna að tryggð sé 3,5% ávöxtun. Við höfum verið að fjalla um hvernig við fjármögnum vegakerfið í framtíðinni og það er hugsanleg gjaldtaka. Þetta ætti mögulega að vera sæmilegur valkostur.

En mig langar aðeins að fjalla um lífeyrisskuldbindingar, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, í lokin. Þær námu um 619 milljörðum kr. um síðustu áramót og hafa hækkað mikið síðustu ár. Áætlað er að greiða, eins og hæstv. ráðherra nefndi, 7 milljarða kr. inn á reikninginn á næsta ári og sennilega þá stefnt að því árlega á næstu árum. En ég leyfi mér að spyrja: Hvernig er áætlað að vinna á þessum stabba? Hann er ekki lítill. Eru til einhver plön um það, t.d. næstu þrjá áratugina?

Ekki vil ég vekja neinn ugg eða angist hjá þúsundum verðandi lífeyrisþega, en eru þetta hugsanlega einhverjar verulegar búsifjar? Í ljósi þess sem dósentinn okkar og fyrrverandi viðskiptaráðherra hefur nefnt, að lífeyrissjóðakerfið muni á næstu áratugum stækka að óbreyttu mun hraðar en hagkerfið og þetta sé mikill áhrifavaldur í íslenska hagkerfinu, er einhver möguleiki á því að erfitt verði að standa við þær skuldbindingar sem fyrirheit hafa verið gefin um?