149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

kynjavakt Alþingis.

48. mál
[12:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég játa að ég hef ekki kynnt mér þau gögn sem vísað er til í greinargerð með tillögunni en auðvitað er óþægilegra fyrir okkur sem erum að reyna að taka afstöðu til málsins að ekki sé farið út í það með hvaða hætti önnur þjóðþing hafa nálgast þetta fyrst vísað er til þess að reynsla sé fyrir hendi annars staðar og að hún sé góð.

Hitt sem ég vildi árétta er að þingmenn sem eru hér sem þjóðkjörnir fulltrúar eru með engum hætti starfsmenn í hefðbundnum skilningi þess orðs, njóta hvorki réttinda né bera skyldur á þeim forsendum, heldur hafa sérstakar skyldur við kjósendur sína sem velja þá til starfa á lýðræðislegum forsendum.

Ég lýsi í raun og veru aftur miklum efasemdum með þá nálgun að horfa á þetta, eins og mér finnst vera hægt að lesa út úr tillögunni, þannig að með einhverjum hætti sé hægt að bera saman eða leggja að jöfnu stöðu þingmanna og starfsmanna þingsins að öðru leyti. Lagaumhverfið er einfaldlega gerólíkt og þegar menn velta fyrir sér stöðu manna innan þingsins í mismunandi hlutverkum verður auðvitað að hafa þennan grundvallarmun í huga.

Síðan vildi ég bara varpa því til hv. 1. flutningsmanns hvort mörg af þeim verkefnum sem hér eru greind og lúta fyrst og fremst að almennri stefnumörkun á sviði jafnréttismála, því að ég skil a.m.k. síðari hluta (Forseti hringir.) upptalningarinnar hér sem svo að verið sé að biðja um mat á áhrifum tillögugerðar á sviði jafnréttismála, hvort það sé ekki verkefni sem á frekar heima undir Jafnréttisstofu, Jafnréttisráði og öðrum slíkum aðilum innan stjórnkerfisins sem þegar hafa hlutverk á þessu sviði.

(Forseti (JÞÓ): Forseti vill minna þingmenn á að halda ræðutíma.)