149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

kynjavakt Alþingis.

48. mál
[12:25]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka 1. flm. þessarar tillögu, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, fyrir ágæta yfirferð á málinu. Einnig verð ég að segja að ég hef haft nokkuð gaman af því að hlusta á orðaskipti félaga minna. Þeir eru hreint ekki sammála en verð að segja að ég skil báða að nokkru leyti. (Gripið fram í.) Þess vegna erum við kannski í samvinnu, enda er gott að fá Framsóknarmenn inn í málin og ræða þau frá báðum hliðum.

Þetta er nokkuð ítarleg upptalning á verkefnum sem tína þarf til þegar við komum að þessu. Ályktunin felst í því að fela forseta að koma á fót kynjavakt Alþingis sem geri úttekt á því hvort og hvernig kyn hefur áhrif á aðkomu að ákvarðanatöku innan Alþingis, hvernig ályktunum Alþingis og aðgerðaáætlun ríkisstjórna í jafnréttismálum hefur verið framfylgt og skoða næmi Alþingis fyrir ólíkri stöðu kynjanna samkvæmt kynnæmum vísum Alþjóðaþingmannasambandsins.

Kynnæmir vísar. Ég verð að viðurkenna að þetta er mér nokkuð nýtt hugtak og ég er að reyna að tileinka mér það. Nú er ég nokkuð næm á mörgum sviðum og allt í góðu með það. En þá langar mig, fólki til upplýsingar, að grípa niður í greinargerðinni þar sem er skýring á hugtakinu, með leyfi forseta:

„Með hugtakinu „kynnæmir vísar“ er í tillögunni átt við vísa sem greina fólk eftir kyni, aldri og félags- og efnahagslegum bakgrunni. Þeir eru hannaðir til að sýna breytingar á áhrifum kvenna og karla í tilteknu samfélagi og yfir tímabil. Vísarnir eru verkfæri til að meta áhrif íhlutunar í þágu kynjajafnréttis. Kyngreindar upplýsingar sýna hvort bæði konur og karlar eiga aðild að verkefnum sem þátttakendur og sem haghafar á öllum stigum. Nálgunin gerir ráð fyrir markvissri vöktun og árlegu mati í formi skýrslu til Alþingis.“

Margt af þessu liggur fyrir og víðast hvar liggur það fyrir. Við þekkjum nokkuð, hæstv. forseti, hvað eru margar konur og hversu margir karlar. Fyrir nokkrum árum var mjög bjart yfir okkur að því að hlutur kvenna hafði vænkast mjög á Alþingi. Svo hefur heldur dregið úr því. Við þurfum einhvern veginn að átta okkur á því hvað veldur, hvað gerist. Hvernig stendur á því að það eru fleiri karlar í oddvitasveitum, t.d. hjá flokkunum? Eru það einhver náttúruvísindi? Það eru það ekki. Ég kem úr miklum jafnréttisflokki sem hefur lagt áherslu á jafnréttismálin og tekið stór og góð skref í þeim. Það voru settar reglur varðandi framboðslista, ákveðnar hlutfallareglur. Það voru ekki allir á eitt sáttir um að það væri rétta leiðin en ég held að núna þegar reglurnar hafa verið í gildi nokkur ár og menn hafa unnið eftir þeim sé það orðið okkur eðlilegt. Það er aldrei neinn vafi á því að hlutur kynjanna t.d. á listum, þarf að vera jafn. Þetta kemur með þjálfuninni og kemur með æfingunni hjá okkur, af því að við höfum virkilega þurft að æfa okkur í því og taka okkur á í þeim málum.

Þetta er misjafnt eftir flokkum. Hérna eru taldir upp nokkrir punktar, listi frá flokkunum, þannig að þetta ætti allt að vera auðvelt. Ég held í rauninni að við höfum þetta allt fyrir, við erum búin að gera margar jafnréttisáætlanir, bæði hvað varðar búsetu, kyn, aldur o.s.frv. Það vantar ekki, en það sem okkur vantar er kannski yfirsýnin og samfellan í því, hvernig það virkar. Þess vegna get ég tekið undir með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé um að okkur vanti það. Við þurfum að vita hvað virkar og megum svo alveg greina hvað brást, hvað gekk ekki eftir og af hverju það gerðist.

Það eru örugglega margir þættir sem koma þar inn í. Það er ekki til eitt beint svar við því. Það að mörg önnur þing hafa komið upp kynjavakt er jákvætt og gott. Við hljótum alltaf að geta lært af öðrum þjóðþingum og fólki í öðrum löndum, hvernig það hefur þetta. Vissulega er horft til okkar varðandi jafnréttismálin. Fulltrúar okkar eru kallaðir víða til til að ræða jafnréttismál, af því við erum talin standa þar framarlega.

En því er ekki lokið, þetta er stanslaus vinna. Við þurfum alltaf að vera á vaktinni. Við þurfum alltaf að vera meðvituð um að þetta sé eitthvað sem við viljum hafa. Ástandið í dag er ekki það sem ég vil að börnin mín alist upp við, hvorki sonur né dætur. Við þurfum að ná lengra. Þetta er þverpólitískt mál og þetta er mál okkar allra sem við eigum alltaf að hafa uppi og alltaf að ræða.

Ég get þó tekið undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar um að þetta sé svolítið kynlegt mál, komi spánskt fyrir sjónir að vissu leyti. Draumastaðan er náttúrlega sú að við þurfum ekki að vera með eftirlit eða nefndir til að vera að skoða það sem er að gerast. Þetta á að vera okkur eðlislægt, en raunin er önnur.

Þá er það spurning hvernig við formum þetta, hvernig við ætlum að fylgja því eftir. Hv. flutningsmaður er mikill hugsuður og fer oft víða í hugmyndum sínum og það er gott. Þá er hægt að opna hlutina upp á gátt og svo kemur náungi eins og hv. þm. Birgir Ármannsson og neglir það niður. Ég skal síðan fara með hv. þingmönnum hérna fram og við formum þetta saman og finnum millileiðina. Við finnum samvinnuleiðina og við finnum réttu leiðina. Ég er mikið meira en til í það.

Varðandi þá hugmynd að þetta sé einn vinnustaður þá komum við hér inn á mismunandi forsendum. Þingmenn koma inn á öðrum forsendum en þeir sem eru ráðnir hingað. En ég get alveg tekið undir að við erum öll undir sama þaki. Sú sem hér stendur er verkefnisstjóri í Olweusar-áætlun gegn einelti. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá tækifæri til þess að fara með þær áætlanir fyrst manna inn á fullorðinsvinnustaði og gera tilraunir með þær. Þá kristallaðist í huga mínum hvað vinnustaðamenning getur verið misjöfn og er misjöfn, bæði eftir því hvert hlutfall kynja er á vinnustöðunum og öðru. Það er ýmislegt sem er bara tíðkað og liðið. Svo kemur nýr starfsmaður inn á vinnustaðinn og hann fellur ósjálfrátt inn í eitthvert munstur. Það er engin sérstök hugsun á bak við það, það ætlar sér enginn að gera eitthvað slæmt eða koma illa fram.

Við þurfum alltaf að skoða hvernig menningin er, hvað við leyfum og hvað ekki. Ég get alveg fullyrt að við þingmenn værum ekkert mikið að bauka hér hefðum við ekki allt þetta mikla og góða starfsfólk með okkur húsinu. Við erum svo heppin að hafa allt þetta góða starfsfólk sem vinnur með okkur. Öll þurfum við, held ég, sem manneskjur að athuga hvað við erum að senda frá okkur, hvernig við virkum hér inni, hvað við ætlum að leggja til málanna á þessum vinnustað varðandi andrúmsloft og annað slíkt. Það er spurning sem við stöndum alltaf frammi fyrir hvert og eitt, hvaða skilning við leggjum í það að vera almennileg manneskja.

Þetta snýr kannski ekki beint að kynjaréttlæti — en þó.

Málið er um margt mjög athyglisvert, að koma með þetta fram. Mín skoðun er sú að málið sé alveg þess virði að við skoðum það. Við þurfum alltaf að fara yfir þau mál. Það er aftur á móti önnur spurning í hvaða farveg við setjum það. Eigum við að setja enn eina nefndina um eftirlit og eftirfylgni með atriði sem okkur finnast sjálfsagt og á að vera okkur eðlilegt? Kannski þurfum við það, kannski erum við ekki komin lengra. Ég ætla alls ekkert að útiloka það. Það kemur mér ekki til hugar, svo einfalt er nú ekki lífið.

Ég er mjög spennt að fylgjast með framgangi málsins. Í ljósi þess að við byggjum þennan vinnustað upp á samtali og samvinnu hyggst ég bjóða félögum mínum hér fram í matsal að ræða málin og kannski kippum við með okkur einhverjum af starfsmönnum þingsins.

Takk fyrir að leggja þetta fram og vekja athygli á þessu mikilvæga máli.