149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

kynjavakt Alþingis.

48. mál
[12:39]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru eiginlega meðsvör frekar en andsvör hjá okkur hv. þingmanni en ég kaus samt að koma aftur upp til að útskýra enn betur hugsunina á bak við þetta meðan ég hefði færi á því að eiga beinan orðastað við hv. þingmann áður en við færum öll þrjú saman fram í matsal eins og búið er að boða.

Ég átti erindi á skrifstofu Samtakanna '78 um daginn og þar var mér m.a. sýnd yfirlitsmynd, kort sem samtökin búa til á hverju einasta ári, plakat sem raðar löndum upp eftir því hvaða réttindi hinsegin fólk af öllum toga hefur í viðkomandi landi. Þar er Ísland enn þá númer fimm, sex eða sjö, hægt var að sjá England o.s.frv. Þetta er enginn sérstakur hópur eða nefnd sem situr yfir og hvað þá að hún hafi eitthvert boðvald yfir einum eða neinum heldur einfaldlega taka samtökin, og þá systursamtök þeirra um allan heim, saman lista yfir stöðuna.

Á bak við þær upplýsingar eru upplýsingar af svipuðum toga og hér eru taldar upp. Hver er raunverulega staðan? Hver er stefnumótunin? Hver er staðan í lögum og lagasetningu? Hvernig hefur stefnumótun verið framfylgt? Plús það sem hér er svo nefnt, sem við sjáum öll hér inni, að það tekur ekki langan tíma að útbúa lista yfir konur og karla sem sæti eiga á Alþingi. Hann er á alþingisvefnum.

Þess vegna er ekki hér sú hugsun að það þurfi að fara í einhverja umfangsmikla rannsóknarvinnu heldur verði þetta einfaldlega árlegt stöðutékk. Hver er staðan núna frá því í fyrra? Hvað hefur gerst?