149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

kynjavakt Alþingis.

48. mál
[12:51]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðar og gagnlegar ábendingar sem ég hygg að muni nýtast hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vel í sínum störfum. Það örlar þó á því innra með mér að mér finnist eins og hv. þingmaður nái samt ekki sambandi við hugsunina í þessari tillögu. Kannski er hún of nýstárleg fyrir hv. þingmann.

Mér finnst eins og hann sé að gera kröfu um að annaðhvort séum við að horfa út á við eða inn á við þegar beinlínis segir í upphafi þingsályktunartillögunnar hver tilgangur hennar er, að horfa bæði út á við og inn á við, með leyfi forseta:

„… að koma á fót kynjavakt“ — ekki jafnréttisvakt — „Alþingis sem geri úttekt á því hvort og hvernig kyn hefur áhrif á aðkomu að ákvarðanatöku innan Alþingis, hvernig ályktunum Alþingis og aðgerðaáætlunum ríkisstjórna í jafnréttismálum hefur verið framfylgt“ — út á við — „og skoði næmi Alþingis fyrir ólíkri stöðu kynjanna ...“ — eigum við að segja að það sé út á við og inn á við?

Þetta er nýleg aðferðafræði. Hún er þróuð á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins. Það eru ágætisábendingar hjá þingmanni að fara þurfi betur í það í vinnu nefndarinnar hvernig því hefur nákvæmlega verið komið fyrir í öðrum þjóðþingum. Það er kannski ekki nóg að hafa hlekk í þessari greinargerð á þessa vísa Alþjóðaþingmannasambandsins. Ég tek það til mín og læri af því þannig að það er komið gott fóður í vinnu hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Aðeins hvað varðar þetta sem hv. þingmanni varð tíðrætt um, að hafa eftirlit með hinum og þessum stofnunum. Hér er í raun bara verið að tala um að taka saman staðreyndir.