149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

kynjavakt Alþingis.

48. mál
[12:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það væri þá gagnlegt að við myndum aðgreina í þessu máli það sem annars vegar er bara samantekt á tölfræði — sem þarf ekki að setja neina sérstaka vinnu í, heldur væru einföld tilmæli til forseta um að láta upplýsingadeild Alþingis taka saman tölfræðina og birta á vef Alþingis — og hins vegar aðra þætti sem varða mat. Þar stöndum við frammi fyrir flóknara verkefni. Það er mikið álitamál að mínu mati hvort það verkefni eigi heima á forræði forseta þingsins eða annarra aðila. Í stjórnskipun okkar gerum við ráð fyrir að það séu ýmsir aðilar sem hafa almennt það hlutverk að fylgjast með stöðu jafnréttismála og málefna sem varða kynjajafnrétti með ýmsum hætti og alveg ástæðulaust að fela forseta þingsins að hafa eitthvert sérstakt hlutverk í þeim efnum.

Forseti þingsins hlýtur auðvitað að hafa hlutverk sem snýr að starfsemi Alþingis og þar af leiðandi því sem við getum sagt að horfi inn á við. Ef við viljum og teljum ástæðu til að fara út fyrir tölfræði og reyna að greina það með einhverjum hætti innan þingsins hvernig áhrif kynjanna séu, leyfi ég mér að efast um að rétt sé að það sé á vegum forseta þingsins, þó að það geti verið áhugaverð félagsfræðileg stúdía. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því. (Forseti hringir.)

En ég held að skarpari skil og skarpari verkefnalýsing myndi hjálpa málinu.