149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

kynjavakt Alþingis.

48. mál
[12:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég útiloka ekki að ég og hv. þingmaður séum kannski í grundvallaratriðum ósammála um nálgunina í þessu máli. Ég var að reyna að tala mig í þá átt að við gætum fundið sameiginlegan flöt á því en ég útiloka ekki að við lendum á þeim stað að við séum einfaldlega ósammála um að þetta sé mál sem eigi að fara í yfir höfuð, jafnvel þó að við getum verið sammála um að jafnrétti sé æskilegt og nauðsynlegt markmið fyrir okkur, bæði í störfum okkar innan þingsins og eins gagnvart þeirri lagasetningu og áætlanagerð og öðru sem snýr að samfélaginu í heild.

Ég byggi málflutning minn á mjög skýrum og sterkum fyrirvörum við þá nálgun sem hér er að finna. Ég met það þannig að þeir þættir sem þarna er verið að telja upp, og lúta einfaldlega að því að taka saman tölfræði, séu þess eðlis að ekki þurfi endilega þingsályktunartillögu eða málsmeðferð í þinginu til að koma því áleiðis. Ég held reyndar að sú tölfræði liggi meira og minna öll fyrir og það sé kannski bara spurning um framsetningu á heimasíðu Alþingis hvernig það er gert. Ef ég man rétt var töluverð vinna unnin í því sambandi í tengslum við 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna árið 2015 og væri hægt að viðhalda því, hafi það ekki verið gert. Ég hef ekki skoðað það í einhvern tíma.

En þegar kemur að öðrum þáttum geri ég fyrst og fremst athugasemdir við að það sem við köllum vakt, eða nefnd eða vinnu, á vegum forseta þingsins eigi að hafa þetta almenna eftirlitshlutverk með framfylgd áætlana og stefnumótunar á sviði jafnréttismála í þjóðfélaginu yfir heildina litið. Þá myndi ég segja: Nei, það er eðlilegra að það séu aðrir aðilar innan stjórnkerfisins sem sinna því eftirliti og þeir hafa það lögbundna hlutverk nú þegar.