149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

vaktstöð siglinga.

81. mál
[13:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í 2. umr. um þetta frumvarp í þingsal spurði ég hæstv. ráðherra um 2. mgr. 2. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Leiðsögumaður skal í starfi sínu aðstoða yfirvöld við framkvæmd starfa þeirra.“

Ég benti ráðherra á að æskilegt væri að skýra þetta ákvæði nánar, við hvað sé átt, hverja leiðsögumenn eiga að aðstoða, eiga þeir aðstoðar lögreglu og tollgæslu, björgunarsveitir? Lög eiga að vera skýr og afdráttarlaus. Ég hefði kosið, og hæstv. ráðherra nefndi að hann ætlaði að sjá til þess, að þetta hefði verið rætt í nefndinni en það hefur greinilega ekki skilað sér í þessa umræðu. Ég tel að þetta hefði átt að vera skýrara og ákveðin vonbrigði að það skyldi ekki hafa verið skoðað. Að öðru leyti styð ég þetta mál.