149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruvernd.

82. mál
[13:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að spyrja hv. 1. flm., Ásmund Friðriksson, aðeins nánar út í þetta frumvarp. Ég vil byrja á að segja að ég er alveg sammála því að rusli eigi ekki að henda á almannafæri og að við viljum stjórna því hvaða leið eigi að fara í því. Það er hægt að ræða. Hér er alla vega leið sem hv. þingmaður og meðflutningsmenn leggja til.

Þetta er eitt af þeim frumvörpum sem vísa í aðrar lagagreinar. Mér gafst hreinlega ekki tími til að lesa lögin sem þetta breytir, sem eru lög um náttúruvernd, nr. 60/2013. Mig langar því að spyrja hv. þingmann út í það samhengi sem þetta ákvæði kemur inn í. Í 2. gr. frumvarpsins segir að það skuli varðar mann sektum að lágmarki 100.000 ef hann brýtur gegn ákvæði 2. mgr. 17. gr. laganna. Mig vantar pínulítið samhengið sem það er sett í. Er þetta ef fólk er að losa sig við úrgang og sorp einhvers staðar á almannafæri eða nær það eins til þess þegar óvitar henda frá sér karamellubréfi, sem þeir eiga auðvitað ekki að gera og uppeldi á að koma í veg fyrir? Nær þetta eins til þess ef krakki hendir frá sér karamellubréf á víðavangi? Mér finnst samhengið skipta svolitlu máli. Ég náði ekki að lesa alla greinina en mér finnst þetta skipta máli inn í umræðuna um málið.