149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruvernd.

82. mál
[13:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svörin. Það væri auðvitað hægt að fara í langa umræðu um framsetningu á þingskjölum því að það getur verið svolítið erfitt að átta sig á því hverju er verið að breyta, en við tökum þá umræðu einhvern tíma seinna og undir öðrum lið en ekki í umræðu um eitt tiltekið frumvarp.

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir að skýra út hvað það er í raun sem hann sér fyrir sér, hvað það er sem þetta frumvarp á að taka til. Ég velti því hins vegar fyrir mér, og vil þá nota síðara andsvar til að spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér að eftirlitinu með því verði háttað, hvort hann hafi hugsað fyrir þeim lið málsins. Ef ég skil málið rétt er talað um alla þá sem fara um hálendið og þjóðvegi landsins. Sér hv. þingmaður fyrir sér einhvers konar lögreglu á hálendinu sem fylgist með því hvort þar sé verið að henda rusli?

Ég er ekki að spyrja út í þetta til þess að vera með leiðindi eða til þess að reyna að tala málið niður, því að eins og ég sagði áðan er ég sammála því að við þurfum að koma í veg fyrir að rusli sé hent úti um allt. En það má velta því fyrir sér hvaða aðferðir og hvaða leiðir séu best til þess fallnar. Ég sé að hv. þingmaður hefur pælt í (Forseti hringir.) þeim efnum. Þess vegna kalla ég eftir aðeins meira kjöti á beinin, vegna þess að greinargerðin er ekkert sérstaklega löng eða ítarleg (Forseti hringir.) og ekki hægt að lesa það út úr henni.