149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruvernd.

82. mál
[13:56]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Í seinna andsvari langar mig að spyrja hv. þingmann um þar til gerð ílát, hvort hugmyndin sé þá að slíkum ílátum verði með einhverjum hætti komið fyrir, annaðhvort meðfram vegum, algengum hálendisleiðum eða gönguleiðum í þjóðgörðum, eða hvort ferðamönnum verði útveguð slík ílát til að mynda á greiðasölustöðum í nágrenni þessara staða sem þeir gætu þá tekið með sér og skilað. Eða hvaða pælingar eru í því efni? Það þarf að liggja fyrir jafnhliða því að við setjum svona reglur að við gerum fólki auðveldara fyrir að fylgja þeim eftir.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann út í refsingarákvæðin sem vísa í 1. gr. frumvarpsins í 90. gr. náttúruverndarlaga. Refsiábyrgðarákvæði 90. gr. eru allítarleg, en hins vegar gera flutningsmenn tillögu í 2. gr. frumvarpsins um að bæta málsgrein við 90. gr., eins og fram kemur í frumvarpinu.

Mig langar að inna þingmanninn eftir því hvort vísunin í 1. gr. frumvarpsins eigi fyrst og fremst við um nýju málsgreinina sem verið er að bæta við, eða hvort vísunin í 1. gr. frumvarpsins sé almenn vísun í 90. gr.