149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruvernd.

82. mál
[14:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að segja að ég er ekki endanlega búin að mynda mér afstöðu til þessa máls en í fljótu bragði líst mér vel á það. Fyrirvarinn sem ég myndi vilja hafa á því og það sem ég ætla að láta stjórna svolítið afstöðu minni er hvort þessi sekt sé í samræmi við meðalhóf, þ.e. þá reglu að ganga ekki lengra en nauðsyn krefur til að ná tilteknu markmiði. Eins og ég segi finnst mér málið í fljótu bragði fínt, en þetta eitthvað sem ég myndi vilja skoða betur þegar málið er komið frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd og hingað aftur til 2. umr.

Það sem gleður mig rosalega mikið við að sjá þetta mál er að mér finnst það endurspegla að í raun og veru er ekki mikill ágreiningur lengur í samfélaginu um mikilvægi náttúruverndar. Fólk greinir kannski á um hvað sé náttúruperla eða hvernig vega eigi á milli náttúruverndar og hagvaxtar eða framkvæmda og því um líkt, en í grunninn eru allir sammála um mikilvægi náttúruverndar í þeim skilningi að hingað kemur enginn og segir: Þetta skiptir ekki máli. Það er enginn sem gerir það. Þetta kemur meira að segja aðallega frá Sjálfstæðismönnum og frá einhverjum sem eru í frjálslyndari kantinum í þeim hv. flokki.

Það sem mér finnst hins vegar pínulítið erfitt við málið, og nú reyni ég að gera ekki lítið úr því, það er ekki markmið mitt að gera lítið úr málinu vegna þess að mér finnst viðfangsefni frumvarpsins mikilvægt, er að mér finnst það svolítið endurspegla að stjórnmál og stjórnvöld eru ofboðslega lengi að bregðast við hröðum breytingum í samfélaginu. Það er eðli stofnana eins og Alþingis og í rauninni sem betur fer vegna þess að valdastofnanir sem eiga að vera lýðræðislegar þurfa að þróast hægt. Þær þurfa að vinna hægt til þess að samhugur ríki um mikilvægi þess að beita þeirri stofnun til að laga samfélagið. Þetta er eitthvað sem við tökum sem sjálfsögðum hlut í íslensku samfélagi. Til dæmis eftir efnahagshrunið 2008 og hina svokölluðu búsáhaldabyltingu var enginn sem sagði: Burt með Alþingi. Ég ætla að taka yfir Ísland og ráða þessu sjálfur. Það sagði enginn. Fólkið sem vildi breytingar bauð sig fram til Alþingis. Í því felst virðing fyrir þeirri stofnun í eðli sínu og trú á að hér sé hægt að breyta hlutunum.

En vandinn er að það gerist mjög hægt. Þetta er í raun og veru mál sem við hefðum átt að taka til umræðu og samþykkja í einhverju formi fyrir áratugum síðan, vegna þess að það vill svo til að það eru aðrar breytingar í gangi í umhverfi okkar sem er ekki hægt að lýsa öðruvísi en sem yfirþyrmandi og það eru loftslagsbreytingar.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég sé ekki að fara út fyrir efnið að mati forseta en jafnvel ef svo væri, sem ég væri ósammála, ætla ég að beita neyðarréttinum vegna þess að náttúruvernd og það að draga úr loftslagsbreytingum er ekkert minna en spurning um afkomu dýrategundarinnar okkar, afkomu mannlegs samfélags eins og við þekkjum það á allri plánetunni, þeirri einu sem við kunnum enn þann dag í dag að byggja. Það breytist vonandi einhvern tímann. Vonandi komumst við í það að byggja á öðrum plánetum en það er hætt við því að það takist ekki vegna þess að hraðinn og ótrúleg snilligáfa mannskepnunnar til að framleiða hluti og búa til sniðuga, skemmtilega hluti gæti orðið okkar elskulegu dýrategund ofviða.

Samhengið við þetta frumvarp er að þar er viðurkenning á því að við eigum ekki að skemma umhverfi okkar og í öðru lagi viðurkenning á því að þeir sem skemma umhverfið okkar eigi að borga fyrir það. Það á að vera sárt að skemma umhverfið, það á að vera vont, fólki á að líða pínulítið illa með það. Það eru skilaboðin í frumvörpum eins og þessu og þau eru nauðsynleg.

En af einhverjum ástæðum þegar kemur að loftslagsbreytingum, ástæðum sem ég skal nefna á eftir, er eins og ekki ríki jafn mikill samhugur. Það er vegna þess hægagangs á Alþingi sem ég talaði um áðan.

Nú liggur fyrir skýrsla, svokölluð IPPC-skýrsla, frá 2018. Þetta er ekki skýrsla frá einhverjum vinstri sinnuðum hippum einhvers staðar í fjallakofa sem eru að reyna að koma samfélagslegum málum sínum á framfæri. Þetta er skýrsla sem er unnin og tekin saman af færustu vísindamönnum heims og lögð fram í sameiningu af fólki með alls konar bakgrunn, með ólíka hagsmuni í húfi. Niðurstaðan er ekki sú að loftslagsbreytingar og okkar þáttur í þeim sé eitthvað sem við gætum þurft að hafa áhyggjur af. Það er ekki þannig. Loftslagsbreytingar eiga sér stað núna, í dag. Sjórinn er að hitna, hann er að súrna og lífríkið er að breytast til hins verra, mjög hratt, út af okkur, vegna þess að við hleypum gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið.

Þetta eru eins staðfest vísindi og þau geta orðið í þessari grein. Þetta er ekki tilgáta. Í daglegu máli myndi maður kalla það staðreynd, þó með þeim fyrirvara að í vísindalegum skilningi á maður að fara mjög varlega með slíkt, sem þýðir eitthvað nákvæmt. En í daglegu tali mætti kalla þetta staðreynd. Það á enginn sem þekkir málið, jafnvel bara smá, að efast um það.

Því miður er samband mannkyns við sannleikann afskaplega skrýtið og kaldhæðnislegt, samanber það að enn þá lifa ótrúlegustu trúarbrögð góðu lífi. Fólk er algerlega reiðubúið til að trúa mjög auðveldlega afsannaðri vitleysu ef það vill trúa henni, ef það hentar því að trúa henni, ef það fær völd með því að trúa henni eða ef það fær huggun við að trúa henni. Þetta er ekki áfellisdómur yfir öllum trúarbrögðum heldur er ég er aðeins benda á að sama hverju fólk trúir þá trúir meiri hluti mannkyns einhverju öðru, sem hlýtur þá að vera vitleysa í huga hvers og eins okkar, þar sem engin trúarbrögð hafa hreinan meiri hluta.

Þetta undarlega samband mannkyns við sannleikann þýðir að mannkynið og sér í lagi leiðtogar í mjög mikilvægum iðnríkjum, eins og í Bandaríkjunum og Brasilíu, taka vandann ekki alvarlega, gera lítið úr honum. Forseti Bandaríkjanna, sem ég ætla ekki að tala mjög mikið um hérna vegna þess að það tæki allan mánuðinn, kallaði þetta á sínum tíma kínverskt samsæri. Við erum stödd á þeim stað að forseti Bandaríkjanna, sennilega mikilvægasti leiðtoginn í því að fá stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar og aðrar þjóðir yfir höfuð til að gera eitthvað saman, segir opinberlega að stærsta vá sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag sé samsæri, eitthvert kínverskt samsæri til að draga úr iðngetu Bandaríkjanna. Það er auðvitað fráleit pæling, eins og reyndar flestar sem virðast koma frá þeim manni. En á meðan horfumst við ekki í augu við það að loftslagsbreytingar eru vandamálið sem við eigum að einbeita okkur að.

Þetta er mikilvægt. Við viljum ekki að hafa rusl á hálendinu og á þjóðvegum landsins. Ég skil það og ég er sammála. Við viljum ekki hafa plastslikju á Kyrrahafinu. Við viljum ekki hafa ónýtt land í Úkraínu eða eitraðan sjó í kringum Fukushima í Japan, en við erum að tala um gjörvalla plánetuna. Við erum að tala um meira eða minna alla þætti hennar sem geta yfir höfuð mögulega boðið upp á mannlegt líf, alla vega það sem getur talist líf.

Þess vegna velti ég fyrir mér pólitíska möguleikanum í því öllu saman. Það er ekkert mál fyrir jafnvel hv. Sjálfstæðismenn að koma upp og segja: Mér finnst að það ætti að vera bannað að fleygja rusli og það ætti að vera svo dýrt fyrir fólk að það væri vont. Hvað ef maður segir þetta um losun gróðurhúsalofttegunda? Hvað ef maður stingur upp á því að það eigi að vera vont, að fólk eigi að líða pínu illa með það? Það fer á samvisku fólks en það er ekki nóg. Hvað ef maður stingi upp á því að olíugjald yrði hækkað svo mikið að það yrði beinlínis vont?

Við skulum hafa alveg á hreinu hvað er sagt í þessari skýrslu. Það sem þarf til að snúa algerlega við hræðilegri þróun á þessari öld, innan líftíma margra sem hér eru inni, eru mjög róttækar og fordæmalausar breytingar á samfélagi okkar. Og hvenær höfum við verið snögg að slíku? Vorum við fljót að fara út í jafnréttispælingar eða að frelsa þræla eða eitthvað því um líkt? Slík verk taka venjulega áratugi, jafnvel hundruð ára, og sum eru enn óunnin. Við þurfum að gera þetta á næstu örfáu áratugum til þess að jörðin verði áfram byggileg.

Það er erfitt að ýkja hversu yfirþyrmandi vandinn er. Mér finnst því miður enn þá eins og fólk taki hann ekki alvarlega og láti eins og þetta sé eitthvað sem reddast. Það mun ekkert reddast. Vitið þið hvernig náttúrulögmálin hafa skrifað þetta frumvarp? Þau eru búin að skrifa: Ef ekkert er gert þá tek ég allan peninginn ykkar, allan pening í öllum heiminum, alla innviði, rústa öllum samfélögum. Það er sett inn, fyrir að gera ekki neitt núna. Þetta eru ekki ýkjur.

Eins og ég sagði við virðulegan forseta áðan vona ég að ég teljist ekki vera að fara út fyrir efnið. Mér finnst mikilvægt að við höfum í huga að inntak þessa ágæta frumvarps er að við verðum að vernda náttúruna, við eigum að vera sammála um að vernda náttúruna og það á að vera ofboðslega vont að eyðileggja hana. Þetta er ekki spurning um landsbyggð á móti höfuðborg eða ríkan karl á móti fátækum vegna þess að loftslaginu er slétt sama um það hvort gróðurhúsalofttegundum er sleppt út í andrúmsloftið á landsbyggðinni eða af ríkum manni eða fátækum.

Ég vara eindregið við því að í málinu séu dregnar upp einhverjar átakalínur til þess eins að búa til hópa sem vinna hver gegn öðrum í pólitískum slagi. Ég vona að það sé byggt á misskilningi. Ef ekki er erfitt að sjá hvað gæti legið að baki.

Ég ætla að bíða eftir að þetta mál komi frá nefnd í sambandi við sektina, því að gæta þarf meðalhófs. Ég held að það sé hollt að velta fyrir sér hvernig meðalhófssekt í samhengi við loftslagsbreytingar myndi líta út.