149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

vistvæn opinber innkaup á matvöru.

43. mál
[14:45]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir framsöguna. Það er margt sem ég get tekið undir í þessari ræðu og þingmáli. En mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort ekki þurfi, þegar verið er að tala um vistvænar leiðir og dýravelferð, að auka lífrænan búskap á Íslandi og hvort það séu ekki allt of margar hindranir fyrir bændur, þá sérstaklega með tilliti til þess að bændur þurfa að fara með skepnurnar í stór sláturhús. Þar er oft voða lítil virðing borin fyrir því að þetta sé lífrænn búskapur. Eru dæmi þess að farið sé með eina skepnu og það fáist sex læri til baka og ekkert vitað hvort afurðin sem bóndinn fær til baka úr sláturhúsinu sé lífræn eða ekki. Þetta er það sem ég hef heyrt frá fólki í þessum bransa, sem er með lífrænan búskap.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé mögulega með einhverjar tillögur eða lausnir, hvort það sé ekki góð leið að stíga skref í átt að því að fara meira í lífrænan búskap.

Þingmaðurinn talaði um að t.d. væri búið að banna erfðabreytt fóður fyrir kindur. Á það sama að eiga við um naut og kýr? Hvernig getum við þróað okkur áfram í þá átt?