149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

vistvæn opinber innkaup á matvöru.

43. mál
[14:51]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir ágætar spurningar. Heimaslátrun hefur náttúrlega verið tíðkuð í gegnum tíðina, tíðkuð lengi. Núna geta menn fengið leyfi til að setja á fót lítil sláturhús, minni stöðvar, til að slátra í. Raunin er sú eftirsóknin hefur ekki verið mikil. Eftir að reglurnar voru rýmkaðar held ég að aðeins hafi borist ein umsókn.

En ég er alveg sammála því að þetta sé nokkuð sem þurfi að skoða og menn þurfa hvatana. En girðingarnar hafa verið ansi háar. Regluverkið í kringum alla vinnuna við meðferð afurðanna hefur verið ansi snúið og ansi flókið. Sumir sjá einhverja rómantík í því að slátra heima og að við höfum blóðvöllinn úti. Æ, mér finnst það nú ekkert sérstakt. En við þurfum að hafa ákveðnar reglur og við þurfum alltaf að hafa velferð dýranna að leiðarljósi. Það höfum við, við höfum mjög strangar reglur og ekki er gefinn neinn afsláttur af því í nokkurri búgrein hér á landi. Í svínarækt og kjúklingarækt eru strangari reglur en tíðkast annars staðar, sem gera bændum ekkert auðveldara fyrir.

En svo er annað sem mig langar að benda á varðandi gæði vörunnar og afurðirnar sem við erum með hér: Við fóðrum skepnurnar okkar á grasi. Við framleiðum vöru og afurðir af grasbítum. Stór hluti mannkyns hefur ekki einu sinni aðgang að slíku og fær aldrei matvæli sem eru tilkomin með þeim hætti. Þetta er nokkuð sem við eigum að halda í, það er bara merkilegt að við skulum hafa þetta hér. Það er horft til okkar öfundaraugum.

Þess vegna hlakka ég til að koma hingað með mál um verndun á túnunum sem við eigum. En það er nú önnur saga.

En það eru hvatar til nýsköpunar í búvörusamningnum. Það eru styrkir til að fara út í lífrænan búskap. Það er allt til staðar. En þetta eru bara ákveðin skref sem hver og einn verður að stíga og sumir vilja ekkert endilega fara í einhverja vöruþróun eða framleiðsluþróun. Bændur framleiða bara það sem að búinu snýr og kjósa svo ekki að fara lengra. Það verður bara hver og einn að hafa fyrir sig.