149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

vistvæn opinber innkaup á matvöru.

43. mál
[14:53]
Horfa

Berglind Häsler (Vg):

Frú forseti. Mig langar að fagna þessari þingsályktunartillögu og vona að hún verði samþykkt. Fljótt á litið a.m.k. sé ég ekki margt sem stingur í augu. Mig langar til að bæta við hvort ekki væri sniðugt að setja inn í innkaupastefnuna áherslu á að kaupa innlent hráefni. En hv. þingmaður svaraði því. Það er bara ekki heimild fyrir því. Ef við skoðum vistsporin blasir það náttúrlega við, eins og hv. þingmaður bendir á.

Það væri ótrúlega mikilvægt mál og risastórt mál fyrir bændur. Við þekkjum öll stöðu bænda og miðað við hvað ríkið kaupir inn myndi það skipta töluvert miklu máli.

Hv. þingmaður kom inn á matvælastefnuna og við ræddum lífrænan búskap. Ég er nú lífrænn bóndi þannig að ég má til með að koma inn í þá umræðu. Ég sakna þess að sjá ekki minnst á lífrænan búskap í þessum leiðarstefjum um fyrir matvælastefnu Íslands. Auðvitað tek ég undir að við gerum frábæra hluti. Lífrænn búskapur er auðvitað einstakur og eins umhverfisvænn og hugsast getur. Ekki er verið að flytja inn áburð, unnið er sem minnst með tæki og tól. Sauðfé er auðvitað grasbítar en ekki eru öll dýr grasbítar, eins og svín og fleiri dýr, þó svo að sauðfé sé það.

Varðandi heimaslátrun. Búið er að rýmka reglur og verkefnið Beint frá býli er ótrúlega flott, að smáframleiðendur geti gert meira heima fyrir. En það má samt ekki gleyma því að það liggur ótrúlega mikil vinna að baki því að vera smáframleiðandi, eins og ég þekki sjálf. Ég hef aldrei unnið neina vinnu sem er svona erfið.

Það má heldur ekki gleyma því að þegar er verið að tala um að Beint frá býli og allt það muni gera svo mikið fyrir bændur — ég er bara ekki sammála. Við þurfum einhvern veginn að hugsa þetta miklu stærra. Þótt sauðfjárbóndi slátri heima þarf að hugsa það til enda. Hvað ætlar hann að gera við kjötið? Hann þarf að selja það, hann þarf að þekkja eitthvað inn á markaðssetningu. Hann þarf að hugsa þetta algerlega til enda. Auðvitað eru margir bændur sem gera það, sumir gera það nú þegar og það mjög vel og kjötið frá þeim er mjög eftirsóknarvert fyrir suma sem hugsa þetta svona, eins og ég geri reyndar. En það er engin lausn í því til langframa. Það er einhvern veginn ekki þannig.

En að sjálfsögðu viljum við fjölbreyttan landbúnað. Við viljum að það sé rými fyrir alla og auðvitað rými fyrir nýsköpun. En nýsköpun er auðvitað ekkert sem allir vilja. Sumir vilja bara vera framleiðendur. Og þar sé ég rosalega mikil tækifæri, þ.e. í meiri samvinnu. Ef við gætum skipt landinu meira upp í héruð, eins og á Austurlandi, þar sem eru mjög margir sauðfjárbændur, ef við gætum hreinlega verið með verkefnisstjóra á Austurlandi sem væri allur í tækifærum og markaðssetningu og útflutningi o.s.frv., gæti það leitt menn saman. Fólk með ólíka styrkleika gæti lyft grettistaki.

Það er oft erfitt að vera heima í héraði og labba á milli bæja og heyra allar hugmyndirnar sem fólk hefur. En svo vantar kannski einhvern til að grípa boltann og bara kýla á þetta. Ég sé tækifæri í því.

Djúpavogshreppur er t.d. farinn að hugsa svolítið á þessum nótum, að reyna að hjálpa mönnum til að efla alla framleiðslu heima fyrir, leita leiða til að efla framleiðslueldhús í héraði og reyna að nýta þann mannauð sem sveitarfélagið hefur til að efla vöruþróun heima og reyna að vinna það svolítið sem teymi, undir því sem heitir „Cittaslow“. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér.

Ég gæti talað um þetta allan daginn. En mér líst rosalega vel á þetta. Við þurfum að setja okkur ótrúlega metnaðarfulla framtíðarsýn í landbúnaðarmálum. Það þurfa allir að koma að borðinu og við þurfum að nútímavæða landbúnað. Við erum búin að vera allt of lengi í sömu hjólförunum og hugsa um sömu hagsmunaaðila allt of lengi. Þannig að við þurfum að hleypa nýju fólki að og efla það starf sem þegar er unnið og það unga fólk sem sýnir núna svo mikinn metnað og viðleitni til að koma okkur á nýjan stað.