149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

vistvæn opinber innkaup á matvöru.

43. mál
[15:04]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér vistvæn opinber innkaup á matvöru. Ég ætla ekki að bæta neinu umtalsverðu þar við heldur nota tækifærið og ræða vistvæn innkaup og aðflutning matvæla yfir höfuð, með almennum orðum, og draga saman svolítið heildræna sýn.

Margt hefur komið fram í andsvörum hér á undan og ekki víst að ég bæti svo miklu við, kannski næ ég að pakka þessu saman í svolítið heildrænni mynd.

En ég ætlaði að beina fyrst sjónum að framleiðslu innan lands bæði til lands og sjávar.

Það er kannski fyrst varðandi lífrænu vöruna í landbúnaði. Það eru ekki nema rétt um 20 bú á landinu sem teljast lífræn. Ég var með fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hvað hægt væri að gera til að hvetja til meiri lífrænnar ræktunar. Við áttum ágætisumræðu, sem ég ætla svo sem ekki að vísa til. En það hefur komið hér til umræðu og er mjög mikilvægur þáttur í þessu öllu saman.

Þar er þó eitt sem menn verða að muna, og það er kannski svolítið misjafnt eftir því hvort við erum með lífræna grænmetisframleiðslu eingöngu eða kjötframleiðslu, að kolefnisspor lífrænnar ræktunar getur verið býsna hátt. Það er m.a. út af lífrænni áburðarnotkun. Oft og tíðum þarf að vinna sérstaklega að mótvægisaðgerðum til að kolefnisjafna slík bú.

Það er nú það sem ég vildi koma á framfæri varðandi lífrænu búin.

En aðeins frekar um landbúnaðinn. Sú afmiðjun í landbúnaði sem ég hef verið talsmaður fyrir, þ.e. að reyna að minnka þá samþjöppun sem hefur verið drifin áfram af efnahagslegum orsökum með því að fækka mjólkurbúum, fækka sláturhúsum, lengja akstursleiðir o.s.frv. — það er alveg klárt mál að út frá loftslagsmálum er sú leið, að minnka samþjöppun, að hluta til alveg rétt. Þetta snýst auðvitað um, eins og komið hefur fram, örsláturhús, vinnslu nær kaupendum, að ég tali nú ekki um verslun nær kaupendum. Ég hef eytt töluverðum tíma í þinginu til að ræða nákvæmlega um verslunina, vegna þess að við sjáum hvernig hún er orðin. Þetta eru tiltölulega fáar matvöruverslanir. Það snýst allt um gríðarlegt magn af umbúðum, gjarnan plastumbúðum; lausasala er mjög takmörkuð, það er annaðhvort hálft kíló af gulrótum eða ekkert. Öll þessi forpökkun er sennilega til að spara mannskap. Menn kaupa kjötið í bökkum, það er ekki hægt nema á örfáum stöðum nú orðið, jafnvel hér á höfuðborgarsvæðinu, að kaupa eftir vigt. Það er jú mjög mikilvægt að breyta þessum verslunarháttum. Mönnum finnst þetta kannski gamaldags og einhver rómantík vera yfir kaupmanninum á horninu. En raunveruleikinn er því miður þannig. Ég er ekki að tala um einhvern kaupmann á horninu, ég er að tala um markaði að erlendri fyrirmynd sem okkur hefur aldrei tekist að þróa hér, sumpart vegna gríðarlega strangra hreinlætiskrafna og einfaldlega líka vegna þess að ekki er hefð fyrir því. En hún er allt um kring í löndunum hér í Evrópu og á auðvitað ekki síður erindi hingað. Það er ekki annaðhvort eða, það er auðvitað bæði og. Svokallaðir stórmarkaðir verða hér áfram að einhverju leyti. En það er mjög mikilvægt að vinda ofan af því vegna þess að við vitum hver matarsóunin er, hver umbúðasóunin er, hvað það kostar fólk í akstri, hvað það kostar birgjana í akstri og hvað það kostar sláturleyfishafann í akstri eða bændurna sjálfa.

Allt þetta er hluti af loftslagsmálunum og opinberum innkaupum á matvöru ef því er að skipta, og tengist auðvitað dýravelferð. Ég ætla ekki að fara neinum orðum um hana, hún er svo augljóst mál að það þarf ekki að ræða hana neitt sérstaklega.

En við getum alveg eins speglað þetta yfir á útgerðina. Nú á ég við útgerð til innanlandsbrúks, útgerð í nærumhverfi og útgerðarhætti. Maður getur líka hugsað sér lífrænar fiskveiðar og lífrænar fiskivörur. Það á auðvitað líka erindi til okkar. Þetta snýst um stuttar leiðir á miðin og hið stóra byggðaatriði, að reyna að koma hluta af kvótanum aftur á ótal staði sem misst hafa kvótann af augljósum ástæðum, en sem þurfa að geta stundað meira en brýnustu strandveiðar.

Þarna er því líka þáttur sem snertir vistvæn innkaup á matvöru, hvort það er hið opinbera eða almennt séð.

Annað atriði sem mig langar að benda á er nýsköpun. Sú vistvæna vara sem okkur langar til að kaupa eru ekki bara vistvænar gulrætur í bréfpoka heldur alls konar vörur sem þróaðar eru út frá grunninum. Það er alveg klárt mál að til að breyttir neysluhættir og breyttir verslunarhættir gangi upp þarf svona nýsköpun að vera öflug. Nýsköpun tengist líka minnkandi útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá skepnunum okkar. Verið er að þróa fóðurbæti eða íblöndunarefni í fóður sem lofar mjög góðu varðandi það að það kemur minna metan úr meltingarvegum þessara jórturdýra en áður hefur verið. Þetta eru efni sem eru að mínu mati vistvæn, og í öðru lagi, þótt ég hafi ekki neina þekkingu á því, hafa þau reynst vel og eru mjög lofandi, ef ég má orða það þannig.

Þetta vildi ég segja um framleiðslu innan lands. En svo aðeins um innflutning matvara vegna þess að það snertir auðvitað líka opinber innkaup. Við verðum að byrja fyrr en seinna á að miða umræður okkar meira við loftslagsmarkmið okkar, sem eru jú loftslagsmarkmið í þágu heimsins, ekki bara okkar.

Ég dreg þá upp úr hattinum markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland 2040. Hingað til hafa neytendamál, ef við köllum þetta neytendamál, mikið af innfluttum landbúnaðarvörum, snúist fyrst og fremst um verð. Kannski gæði að einhverju leyti, en það er verðið enn og aftur sem skiptir máli fyrir talsmmenn mjög margra, bæði verslunar og neytenda. Menn draga hér fram fáránleg bláber frá Síle sem flutt eru um hálfan hnöttinn á veturna til þess að við getum borðað þau á þeim tíma og menn draga jafnvel fram það sem við kallað bragðlausa tómata frá Hollandi. Þetta er allt flutt með eins stóru vistspori og hugsast getur. Þessar flutningsvegalengdir þurfa að vera inni í umræðunni um vistvæn innkaup heimila, opinberra aðila eða hverra sem er, og eins framleiðsluhættirnir sjálfir.

Búið er að koma inn á plöntuverndarvörurnar svokölluðu í umræðunum á undan, sem sumir kalla nú bara plöntueitur sem eru náttúrlega notaðar í miklum mæli í ræktun mjög víða í kringum okkur. Við erum að flytja svoleiðis matvæli inn.

Lyfjanotkun og sýklaónæmi: Hér er búin að vera mikil umræða um það og þarf ekki að endurtaka. Vistspor hvers kílós af slíkri matvöru, bara í flutningum. Og svo kemur dýravelferð einnig inn í þetta.

Í staðinn fyrir að leggja sífellt ofuráherslu á budduna á að fara að leggja áherslu á það sem við kölluðum vistgæði og vistverðmæti. Þegar allt kemur til alls að lokum verður það buddan líka. Við vitum alveg hvernig þróunin fer ef loftslagshlýnunin heldur áfram í sama mæli og verið hefur hingað til mun þetta kosta heimilin skilding. Menn munu þá eflaust minnast þessarar umræðu um eins lítið heftan innflutning á matvælum og hugsast getur, helst engin höft.

Ég ætlaði að draga það fram hér og hvetja til þess að þessi umræða snúist um endurskoðun allra innkaupa og endurskoðun alls innflutnings. En þessa þingsályktunartillögu styð ég hins vegar og vona að hún fái framgang.