149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

vistvæn opinber innkaup á matvöru.

43. mál
[15:24]
Horfa

Berglind Häsler (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég má til með að bregðast aðeins við þessu. Mig langar bara að hv. þingmaður skili því til vinar síns sem var að tala við hana á ganginum í gær að þetta er ótrúlega mikilvægt mál sem við þurfum að ræða og við erum auðvitað alltaf að ræða það af því að við komumst einhvern veginn ekki að neinni vitrænni niðurstöðu. En ég held að samt glitti í það núna með þessu. Mér finnst eins og ríkisstjórnin sé að leggja mikla áherslu á þetta og auðvitað þurfum við að ræða þetta til hlítar og til enda.

Varðandi stöðnun í lífrænni ræktun þá er auðvitað stuðningur við lífræna ræktun skammarlega lítill. Það að menn skuli skila inn leyfum er líka komið til vegna þess. Það er strangt eftirlit, þetta er talsvert erfiðari vinnsla og hægari o.s.frv., en á móti kemur að maður getur fengið hærra afurðaverð þannig að það er líka til mikils að vinna.

Það vantar kannski líka að ræða meira um lífræna ræktun. Viðhorfið er svolítið þannig að einmitt af því að við eigum svo hreint vatn og hér er allt svo hreint og fínt þá séum við sjálfkrafa lífræn. En það er auðvitað ekki þannig. Þess vegna held ég að það skorti svolítinn skilning og örlítinn áhuga á málaflokknum. Þess vegna þurfum við einmitt að ræða þetta og skoða betur.