149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

vistvæn opinber innkaup á matvöru.

43. mál
[15:29]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að koma hingað upp til að þakka fyrir ágæta umræðu og vangaveltur, eitthvað af því frammi á göngum, um hversu mikið við ræðum landbúnað. Það lýsir bara því, ætla ég að leyfa mér að segja, að menn átta sig ekki á því að allt sem við gerum, allt sem er í kringum okkur, hvað sem við sjáum, er af því að einhver tók sig til og fór að vinna eitthvað úr mold. Þannig kemur það til. Við erum að yrkja jörðina, við erum að rækta, við erum að búa okkur til lífsviðurværi. Það verður allt til þannig. Auðvitað ættum við að ræða landbúnað alla daga ef út í það er farið. Hann er grunnurinn að öllu. Hann er matvælaframleiðslan. Hér erum við að framleiða hrein og góð matvæli og eigum greiðan aðgang að þeim og það eru gríðarleg forréttindi sem við búum við. Við eigum að viðhalda þeim forréttindum og þeim aðbúnaði fyrir börnin okkar og afkomendur okkar.

Það er svo skemmtilegt við það mál sem hér er, sem snýr að vistvænum innkaupum ríkisins á matvælum, að við höfum farið út um víðan völl. Það gerist vegna þess að þessu máli tengist svo ótal margt. Við höfum verið að tala um heimaframleiðslu, við höfum verið að tala um smáframleiðslu. Menn sjá ákveðna hluti í rómantísku ljósi. Bóndinn er heima, býr allt til og nær að selja frá sér fullbúna afurð. Einhverjir eru til í það, það eru samt ekki allir. Það er hellingskunnátta og yfirgripsmikil þekking ef þú ætlar líka að vera söluaðili og vinna úti á smávörumarkaðnum. Það eru ekki allir tilbúnir til þess. Þess vegna líst mér stórvel á hugmynd hv. þm. Berglindar Häsler um að koma á einhvers lags verkefnastjórum, búa til svæði þar sem hægt væri að vinna saman.

Þá komum við að samvinnunni og samvinnuleiðinni sem ég er svo hrifin af. Hún er að ná sér betur á skrið núna og ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að horfa til á öllum sviðum. Talandi um klasastefnu, sem við höfum lagt hér fram á þingi líka, þá eru menn að vinna saman þar. Ef þetta væri leið til að nýta hvert landsvæði fyrir sig, styrkja það, byggja á sérstöðu þess, er ég meira en tilbúin til að styðja við það.

Hér talaði hv. þm. Halldóra Mogensen sem vill kaupa lífrænt en lýsti því yfir að hún ætti jafnvel í vandræðum með að finna vöruna og þyrfti að aka á milli margra verslana til að verða sér úti um þann varning sem hana vanhagaði um. Þá velti ég fyrir mér: Hvað kostar það? Hversu stórt er kolefnissporið eftir að vera búin að aka á milli verslana? Er það gott? Nei, ég held ekki. Þetta eru allt fjölbreyttar spurningar sem við getum velt fyrir okkur og skoðað. En í þessari tillögu erum við með útgangspunktinn með kolefnissporið og vistvæna sporið sem kemur eftir innkaupin. Það leiðir okkur á þá braut að við hljótum að ætla að nýta nærumhverfi okkar. Mér finnst það blasa við. Ég þarf ekkert að tipla í kringum það.

En í ljósi þess að áherslur ríkisstjórnarinnar eru á umhverfismálin er þetta sannarlega í samræmi við það. Við leggjum líka áherslu á matvælaframleiðslu. Þegar sjást merki þess að við leggjum áherslu á matvælaframleiðslu. Við skyldum ekki vanmeta það, það er grunnurinn að öllu hjá okkur, í ljósi þess hvað gerðist á Norðurlöndunum í sumar. Menn áttu ekki nógu hey. Allt í einu vorum við Íslendingar í færum með að selja hey úr landi. Þá sáu bændur jafnvel pening. Þetta er jákvætt. Við erum að nýta landið okkar, við erum að viðhalda verðmætum og við erum að nýta gæði þess. Það er gott.

En þetta hefur sem sagt verið mjög skemmtilegt. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór inn á reglur um opinber innkaup. Þær eru til. Eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan er mjög auðvelt að uppfylla þær með vörur eins og ritföng og hreinlætisvörur og annað slíkt. Þá er bara merki á vörunni sem er auðvelt að versla eftir og það er leiðarljósið, þú bara kaupir það og þá ertu öruggur um að þú ert að uppfylla þessi skilyrði. Þetta er flóknara í matvælaframleiðslunni. En bændur og matvælaframleiðendur eru að leggja meiri áherslu á — það hafa verið ýmsir þröskuldar í því — rekjanleika vörunnar. Bændur vilja að þú getir farið út í búð og valið hrygg, frampart eða læri eða hvaðeina og séð hver uppruni vörunnar er, úr hvaða landshluta hún er og hvaða bóndi framleiddi hana. Það er gott af því þá hlýtur bóndinn að leggja metnað sinn í að framleiða hágæðavöru. Ef þú rekur þig einhvern tímann á lakar vörur frá einum framleiðanda kaupir þú þær ekki af honum aftur, það liggur í hlutarins eðli og segir sig sjálft.

Ríkið getur gert gríðarlega stóra hluti hvað varðar neyslu á íslenskri landbúnaðarvöru og gott framboð á matvælum. Það gætu verið um 150 þús. manns á fóðrum hjá ríkinu á hverjum degi sem hafa aðgang að ýmsum stofnunum og fyrirtækjum og öðru slíku, heimilum, sjúkrahúsum og hvað þetta allt saman er. Ef við segjum að 2/3 nýti sér það eru það 100.000 manns á dag sem borða á stöðum þar sem ríkið sér um að matreiða. Það segir sig sjálft að það skiptir máli hvað er á boðstólum, hvernig það kemur til og hvernig ríkið ætlar að ganga á undan með góðu fordæmi í þeim efnum. Við erum í fullum færum með að uppfylla þessi skilyrði, fara eftir þessum umhverfislegu áhrifum og þá sýnist mér að það leiði til þess að við munum styrkja innlenda framleiðslu.

Mig langar til að grípa aðeins niður í þetta — því að fólk hefur farið hér um víðan völl — og leyfa mér að fara aðeins lengra. Í skýrslu landbúnaðarráðherra frá 2010 um fæðuöryggi stendur, með leyfi forseta:

„Árið 1996 stóð Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) að ríkjaþingi um fæðuöryggi (e. World Food Summit). Þar var samþykkt svonefnd Rómaryfirlýsing sem hefur m.a. að geyma hugtaksskilgreiningu á fæðuöryggi. Þar segir að fæðuöryggi sé til staðar þegar allir menn, á öllum tímum, hafa raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, heilnæmum og næringarríkum mat sem fullnægir þörfum þeirra til að lifa virku og heilsusamlegu lífi. Þessu markmiði verði náð með skipulagningu á öllum stigum. Hver þjóð verði að gera áætlun á grundvelli möguleika sinna til að ná eigin markmiðum um fæðuöryggi, og vinna um leið með öðrum þjóðum, svæðisbundið og á alþjóðavísu, við að skipuleggja sameiginlegar aðgerðir til að leysa úr viðfangsefnum sem ógna fæðuöryggi á heimsvísu.“

Við erum í fullum færum til að gera góða hluti. Við erum að gera góða hluti og við eigum að halda því áfram. Við getum og eigum að gera kröfu um að börnin okkar hafi aðgengi að heilnæmum og næringarríkum mat. En það eru ekki bara íslenskir bændur, það er líka íslenskur sjávarútvegur sem er undir. Þar stöndum við mjög framarlega og þar er mikil áhersla á gæði og góða framleiðslu. Við getum stolt boðið matvælin fram hvar sem er.

Ég þakka fyrir þessa umræðu. Þetta er, eins og einhver sagði, þess vegna hægt að ræða í allan dag og alla daga. Við eigum að tala miklu meira um þessi mál því að landbúnaðurinn er grunnurinn að öllu. Hér setjum við fram stífar kröfur um gæði og utanumhald um alla okkar framleiðslu. Við eigum hvergi að hvika frá því. Niðurstaðan hlýtur alltaf að verða sú að heilnæmur og næringarríkur matur er lykilatriði til að geta lifað virku og heilsusamlegu lífi.

Ég þakka góða umræðu og hlakka til að sjá hvern framgang þetta mál mun fá hér í þinginu. Hv. fjárlaganefnd mun taka þetta mál til sinnar umsýslu og ég óska henni alls hins besta við það. En takk fyrir góðar umræður.