149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

húsnæðisbætur.

140. mál
[15:48]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Já, því miður sé ég líka fyrir mér að það gæti orðið hætta á því. En þá tel ég mikilvægt að fara að skoða þann málaflokk aðeins heildrænt. Þetta er augljóslega hluti af lausninni. En mögulega þarf að hugsa það heildrænna hvernig við getum komið í veg fyrir þetta. Nú er umræða í gangi um hvort hugsanlega sé hægt að setja einhvers konar þak á leigumarkaðinn. Ég hef ekki myndað mér neina skoðun á því hvort það sé rétt leið að fara. En ég tel vera gífurlega mikilvægt að hugsa þessa hluti og sérstaklega hvernig við getum gert leigumarkaðinn heilbrigðari. Það hefur komið í ljós, og ég veit að Íbúðalánasjóður gerði mjög áhugaverða könnun — því að yfirleitt þegar gerðar hafa verið kannanir og fólk spurt hvort það myndi frekar vilja vera á leigumarkaðinum eða kaupa svara flestir að þeir myndu vilja kaupa — en Íbúðalánasjóður stóð að mjög áhugaverðri könnun þar sem hann spurði: Ef leigumarkaðurinn væri eðlilegur, hvort myndir þú vilja leigja eða kaupa? Þá voru miklu fleiri sem sögðu að þeir myndu frekar vilja vera á leigumarkaðinum. Og meira að segja fólk sem hafði þegar keypt sér sagði að það hefði frekar viljað vera á leigumarkaðinum en að kaupa sér.

Það er dálítið áhugavert og bendir til þess að við séum kannski of oft að spyrja rangra spurninga þegar við erum að reyna að fá fram upplýsingar, sem bendir til þess að við þurfum að fara að huga að leigumarkaði og hvernig við getum gert fólki kleift, sem hefur kannski ekki áhuga á því, að kaupa sér. Eins og t.d. mér, ég hef ekki sérlega mikinn áhuga á að kaupa húsnæði og hef aldrei haft og væri alveg til í að vera á eðlilegum leigumarkaði. Ég veit að það eru mun fleiri sem deila þeirri skoðun.