149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

húsnæðisbætur.

140. mál
[16:07]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að ítreka að ég er almennt hlynnt því að við séum með öryggiskerfi til að hjálpa þeim sem á hjálpinni þurfa að halda. Ef hv. þingmaður var að tala um einhvers konar borgarahúsnæðisstuðning væri ég ekki hlynnt slíku, svo að það sé tekið fram. Mér finnst að ef við erum að verja fjármunum til að styðja fólk séu þeir fyrir þá sem á aðstoðinni þurfa að halda.

Varðandi aðgerðir vegna hækkunar á leiguverði, sem hefur verið töluvert til umræðu hér, þá hafa einhverjir t.d. talaði um þak, leiguþak. Ég óttast að það yrði hreinn hryllingur og myndi hafa eitthvað mjög neikvætt í för með sér, að fólk færi utan markaðar, að leigja svart og annað slíkt. Ég óttast að það myndi ekki ná fram þeim góðu markmiðum sem fólk vill, að einhver stöðugleiki sé á leigumarkaði.

Um aðgerðirnar vil ég segja að ég held að þær snúi fyrst og fremst að auknu framboði. Þetta er fyrst og síðast ákveðinn markaður og þar ráða ákveðin markaðslögmál framboði og eftirspurn, þannig að með auknu framboði ætti verðið að lækka. Þá vil ég nefna að þessi breyting gæti haft áhrif á þetta. Lögin í dag stýra fólki fyrst og fremst inn í litlar einingar, sem er mjög takmarkað framboð af og eru auk þess einingar sem mjög gjarnan rata inn í Airbnb, útleigu til ferðamanna, en þetta gætti opnað möguleikana á leigu stærri húsnæðis og mögulega haft þau áhrif að vera til lækkunar á markaði.