149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruhamfaratrygging Íslands.

183. mál
[16:41]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Ég fagna mjög því máli sem er lagt hér fram. Þetta er verkefni sem við þurfum að taka vel utan um. Ég skil mjög vel að þeim sem lenda í skýstrók og sjá heimili sitt tætt í sundur og verða fyrir miklu tjóni þyki mjög erfitt að upplifa á fyrstu stundum þar á eftir að þeir séu ekki tryggðir fyrir slíkum hamförum.

Þó hugguðu aðeins orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur áðan um að þessu hefði verið breytt þannig að lögin segðu í dag eða væru túlkuð þannig að það sem væri utan mannlegs máttar að hafa stjórn á væri hugsanlega tryggt. En auðvitað þarf það að vera skýrt þannig að ekki sé hægt að toga og teygja hlutina.

Vöktun náttúruvár á Íslandi hefur aukist mjög mikið á síðustu árum. Eftir samtal mitt við Veðurstofuna, sem tengdist vöktun á Svínafellsheiðinni í Öræfum þar sem yfirvofandi hætta er á berghlaupi á stærðarskala sem við höfum aldrei séð áður, er þessi umræða mjög vakandi í mínu sveitarfélagi, Hornafirði. Þar hefur fólk verið að hugsa um stöðu trygginga hjá þeim sem eru á því svæði sem hugsanlegt berghlaup gæti náð yfir. En samkvæmt samtali mínu við Veðurstofuna er verið að óska eftir aukinni vöktun á ýmsum svæðum á landinu þar sem fólk telur hættu á ýmissi náttúruvá og hefur beiðnum um áhættumat fjölgað mikið þar sem fólk er meira vakandi fyrir þessum hlutum, t.d. varðandi skipulagsmál og annað.

Ferðamenn og Íslendingar eru náttúrlega á ferðinni víðar um landið en áður hefur verið og verið er að skipuleggja ferðaþjónustu og annað slíkt.

En þarna eru loftslagsbreytingar sem munu koma mjög inn í, t.d. varðandi berghlaupið þar sem jökull hopar og los er í jarðvegi og slíkt. En það mál sem er verið að ræða í frumvarpinu, skýstrókarnir — það er ekki spurning að þetta er fyrirbrigði sem við eigum örugglega eftir að sjá meira af.

Þá er gott að þeir sem hugsanlega þurfa að forða sér undan þeim fyrirbrigðum í framtíðinni geti þá alla vega átt einhvern að halla sér að með tryggingar ef að því kemur.