149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruhamfaratrygging Íslands.

183. mál
[16:44]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Ég vil þakka hv. flutningsmönnum fyrir að koma með þetta hingað inn og 1. flutningsmanni, hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni, fyrir framsöguna og yfirferðina á málinu.

Það er ýmislegt að breytast hjá okkur hér á landi, bæði varðandi náttúrufar og veðurfar. Með breyttum tímum er breytt veðurfar í heiminum og við sleppum ekkert við það. Það sem gerðist t.d. á Vesturlandi fyrir nokkru var að menn glímdu við sinuelda í lengri tíma. Það er eitthvað sem hefði ekki verið raunveruleiki fyrir einhverju síðan. Skógrækt hefur aukist til muna og það breytir ýmsu og kannski fjölgar áhættuþáttunum hér á landi með því. Svo er annað að jöklarnir hopa. Það hefur áhrif á umhverfið þar í kring. Þar er hætta á framhlaupi jarðvegs, berghlaupum og öðru slíku. Við þurfum að undirbúa okkur fyrir ýmsar breytingar.

Það sem ýtti mönnum kannski til að leggja þetta mál fram er sá sjaldgæfi atburður að hér fór mjög öflugur skýrstrókur yfir. Vissulega er það þekkt fyrirbrigði hérna en mjög sjaldgæft. Það er mjög sjaldgæft að þeir séu eins kraftmiklir og var raunin í Norðurhjáleigu. Það hlýtur að vera svakaleg tilfinning að standa uppi, heimilið og allt horfið, og engar bjargir til ráðstöfunar og ekkert sem hægt er að grípa í.

Mér finnst eðlilegt að við skoðum þau mál. Líkt og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór yfir voru þau tryggingamál öll til yfirferðar í þinginu og nú eru þeir búnir að breyta því sem kallað var Viðlagatrygging í Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Í þeim stendur, eins og fram kemur í greinargerðinni, að tryggingin bæti tjón vegna eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Fram kemur líka að stuttu síðar hafi kraftmiklir skýstrókar valdið miklu tjóni hérlendis. Skýstrókarnir voru staðbundnir og fóru yfir bæði Norðurhjáleigu og Álftaver í Skaftárhreppi. Nærliggjandi bæir fóru ekki illa út úr hvassviðrinu en í Norðurhjáleigu rifnuðu þök á húsum og stór jeppi og kerra þeyttist út í skurð, girðingar lögðust á hliðina og brak og járnplötur feyktust um allt, kílómetra frá bænum.

Það var mikil mildi að enginn var í húsinu og enginn var heima því undan slíkri náttúruvá er erfitt að forða sér. Þetta gerist snöggt og það er mikil mildi ef hægt er að bjarga fólki af svæðinu. Það verður engum eignum komið undan né gerðar einhverjar ráðstafanir varðandi það.

Samkvæmt almennri skilgreiningu orðabókar eru náttúruhamfarir hamfarir af völdum náttúruafla. Ég myndi ætla að vindar og skýstrókar af þessu tagi myndu teljast sem náttúruöfl og óviðráðanlegir stóratburðir í náttúrunni sem valda tjóni eða mannskaða. Ljóst er að skýstrókar falla skýrt undir þá skilgreiningu og það kemur fram í greinargerðinni. Ég held að við getum tekið undir það.

Þetta er eitthvað sem við þurfum klárlega að skoða í ljósi breyttra aðstæðna. Við þurfum alltaf að vera að mæta einhverju nýju. Þegar af stað var farið höfðu fyrrnefndir atburðir ekki átt sér stað og þess vegna var þetta líklega ekki undir í þessu regluverki.

Ég vil þakka fyrir að málið sé komið fram. Þetta er verulegt umhugsunarefni. Við þurfum að velta fyrir okkur nýjum hliðum á því. Það getur ekki verið notaleg tilfinning að sjá heimili sitt hverfa, eins og ég kom að áðan, og í rauninni ekki hægt að ímynda sér það nema standa í þeim sporum, sem ég vona að fleiri þurfi ekki að gera en í þessu tilfelli. Því miður búum við í harðbýlu landi og það er ýmislegt sem við ráðum ekki við og þar á meðal náttúruöflin. Þess vegna höfum við haft tryggingar en við þurfum að passa að þær séu nógu víðtækar til að hjálpa fólki sem lendir í svona aðstæðum, svona erfiðum aðstæðum, og dekka þá kannski það svæði sem almenn tryggingafélög treysta sér ekki til að standa að. Ef fólk getur ekki tryggt þar þarf ríkið og samfélagið að stíga inn í til að verja íbúa landsins og standa vörð um þá.