149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruhamfaratrygging Íslands.

183. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (Flf):

Herra forseti. Ég vil fyrst leiðrétta mig og benda á að ég óska eftir því að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar en ekki eins og ég nefndi áðan. Ég vil í upphafi þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls undir þessum lið. Það er greinilega mikill áhugi á þessu og mönnum finnst þetta athyglisvert. Margar ábendingar og mörg sjónarmið hafa komið fram. Með loftslagsbreytingum er ýmis ný vá að banka upp á hjá okkur, eins og aurskriður, minnkandi sífreri í fjöllum, sem hugsanlega aukast á næstu árum ef svo fer fram sem horfir með loftslagsbreytingar og hlýnun vegna þeirra. Kannski þarf að skoða það líka í nefndinni hvort nauðsynlegt sé að grípa til viðbragða þess vegna.

Ég nefndi sjálfur gróður- og skógarelda, sem ég tel bara vera tímaspursmál. Ef það kemur langur þurrkatími hér á landi er stórhætta á því að upp blossi eldar sem kannski verða illviðráðanlegir, t.d. í sumarbústaðabyggðum sem eru mjög þéttar. Skógrækt þar er heldur ekki skipuleg að því leyti til að engar sérstakar varnir eru fyrir þeirri hættu, þ.e. auð svæði eða eitthvað slíkt, ekki nema þá bara vegir á svæðinu. Eldar munu leika lausum hala, ef svo má að orði komast, á þessum svæðum ef þeir blossa upp í miklum þurrkum. Þá verður illa við ráðið. Það þarf auðvitað að ræða það líka hvort nefndin skoði þetta í samhenginu, við höfum verið að minnast á það hér, þó að það sé ekki í þessu frumvarpi.

Það var verið að ræða um skriðuna í Hítardal úr Fagradalsfjalli, hvort hugsanlegt væri að náttúruhamfaratryggingarnar myndu greiða viðgerð á ánni eða koma henni í réttan farveg. Það verður kannski ekki ráðið við náttúruna að því leyti til að breyta henni til fyrra horfs; það er kannski mjög erfitt í þessu tilviki þar sem um er að ræða hundruð þúsunda tonna af aur til þess að koma þessu nákvæmlega til baka í samt horf. Við erum kannski svolítið langt frá því að fara út í slíkt, enda held ég að náttúran muni sjá um það að fiskigengd komist aftur í það horf sem hún var eftir einhvern árafjölda og gróður og annað mun ná sér á strik á svæðinu.

Ég ætlaði að nefna hamfarirnar. Hamfarir hafa virkilega verið nátengdar þessari þjóð alveg frá því fyrstu menn komu hingað. Eitt af því fyrsta sem þeir sáu, þegar þeir tóku búsetu í landinu, var að um allt land eru eldfjöll sem valda þeim miklum búsifjum. Þeir þurfa að flýja frá þeim stöðum sem þeir höfðu valið sér fyrst þegar þeir völdu sér búsetu, flýja undan þessum eldfjöllum. Byggð lagðist af víða í sveitum þegar Hekla og Öræfajökull og fleiri eldfjöll, og Katla auðvitað, sýndu mátt sinn. Við lifum í landi þar sem náttúruhamfarir hafa verið mjög algengar og við þurfum að hugsa fram í tímann, hvað getur orðið svo stórkostlegt að ekki sé hægt að ætlast til að fólk sjái það fyrir, sjaldgæfir atburðir, ófyrirséðir. Í frumvarpinu er lagt til að bætt sé við einu sviði hamfara, þ.e. skýstrókum sem hafa ekki komist mikið í annála hér, alla vega ekki að þeir hafi valdið þannig tjóni. Í frumvarpinu er talið að það sé eitt af því sem tryggingin eigi að greiða í framtíðinni, þetta sé ófyrirséð, geti valdið miklu tjóni og ekki hægt að ætlast til að einstaklingarnir beri það heldur verði samfélagið allt að taka þátt í því. Það er ófyrirséð hvar þeir lenda í það og það skiptið. Kannski er möguleiki á því að á næstu árum og áratugum verði slík veðurfyrirbrigði algengari. Það má alveg ímynda sér, ef hiti á jörðinni hækkar áfram, að það verði algengara. Svo má auðvitað ræða um margar aðrar hamfarir eins og við höfum nefnt og margir hafa nefnt hér, sem mætti skoða í leiðinni.

Einhverjir hv. þingmenn ræddu um náttúruhamfarir af manna völdum. Náttúruhamfarir eru kannski ekki af manna völdum en vissulega getur einhver kveikt eld sem geisar svo í framhaldinu um stór svæði, slíkt er ófyrirséð og getur valdið yfirgripsmiklu og illbætanlegu tjóni á stórum svæðum. Mér finnst allt í lagi að ræða það undir þessu máli þegar þetta fer til nefndarinnar varðandi gróður- og skógarelda og þar með talið auðvitað sinuelda.

Annað sem ég ætlaði að nefna var ákvæði í 2. gr. um afturvirkni. Það minntist enginn á það. Það eru fordæmi fyrir því. Ég ætla að nefna þau. Árið 1994 féll snjóflóð á Ísafirði og þar fóru undir skíðalyftur sem voru ótryggðar og fengust ekki bættar. Þá var það bætt af þáverandi náttúruhamfaratryggingu, sem hét Viðlagatrygging á þeim tíma, og síðan eftir Suðurlandsskjálftann var sú trygging sem gilti á þeim tíma útvíkkuð og sjálfsábyrgð var m.a. lækkuð. Þetta er ekki nýtt ákvæði að þessu leyti til með afturvirknina.

Ég óska eftir því að frumvarpið verði sent til efnahags- og viðskiptanefndar og fái þar vandaða og málefnalega meðferð.