149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir kynninguna á þingsályktunartillögu þessari. Ég styð hana og hefði nú þegið að vera meðflutningsmaður, en ég var með varamann inni þegar hún var lögð fram, sem er hv. þm. Sara Elísa Þórðardóttir, og hún er á málinu. Stuðningur minn við málið er ótvíræður.

Mig langaði hins vegar að spyrja hv. þingmann aðeins meira út í viðhorf hans til hvalveiða, kannski ekki óháð niðurstöðum úr þessari könnun, en svona að því gefnu að við hefðum ekki þessa könnun, ef þetta mál lægi ekki fyrir. En ég tel þetta vera rétta skrefið, þ.e. að safna upplýsingum til að sannfæra aðra.

Ég er sjálfur á móti hvalveiðum alveg óháð því hvað kemur úr þessu, vegna þess að ég tel að það sé mikilvægur hluti af siðferðisþroska mannkyns að ákveðnir hlutir sem áður voru í lagi hvað varðar meðferð á fólki og dýrum hætti að vera í lagi. Mér er mjög illa við þá hugmynd um að einhvern tímann ganga þetta til baka allt í einu, einhvern tímann þyki fólki t.d. allt í einu jafnrétti ekki skipta neinu sérstöku máli eða að meðferð fólks á hvert öðru skipta ekki neinu sérstöku máli, fólk fari að aðhyllast pyndingar og eitthvað slíkt. Mér þætti það mjög vond þróun. Ég sé ekki alveg hvernig það er hægt að snúa siðferðisþróun heimsins við í þessu án þess einmitt að snúa siðferðisþróun við. Á þeim forsendum einum og sér er ég mótfallinn hvalveiðum án tillits til þjóðhagslegra áhrifa þeirra. Í fyrsta lagi langar mig að heyra vangaveltur hv. þingmanns um þetta.

Sömuleiðis velti ég svolítið fyrir mér hversu raunhæft það sé að meta eitthvað eins og orðstír út á við, að það sé hægt að mæla hann einhvern veginn og kynna fyrir öðrum þingmönnum til að geta tekið upplýsta ákvörðun. Ég held að slík ímynd sé ofboðslega afstæð, (Forseti hringir.) bæði hér á Íslandi og hjá fólki erlendis.