149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni. Ég átti eftir að koma að því hvernig við getum mælt orðspor okkar í útlöndum, hvort það er gott eða vont. Það eru svo sem til alls konar aðferðir til að reyna að slá á það, a.m.k. erum við mjög á því að kanna viðhorf ferðamanna t.d. til Íslendinga og af hverju þeir koma hingað, hvaða álit menn hafa á okkur. Það er hægt að nálgast það, en ég held að ekki sé hægt að mæla það með neinni nákvæmni. Ég hugsa að heimsbyggðin, án þess að ég viti það, sé svo sem ekki daginn út og daginn inn að velta því fyrir sér hvort Íslendingar veiði hval, en það eru samt mjög stórir hópar sem gera það og áhrifamiklir hópar. Ég held að það sé full ástæða til að taka tillit til þeirra sjónarmiða.

Varðandi veiðarnar þá hallast ég að því, eins og ég sagði, að það sé ekki skynsamlegt fyrir okkur af mörgum ástæðum, bæði viðskiptalegum og einmitt líka út frá þessum orðsporssjónarmiðum að veiða hval. Þótt ég sé svo sem ekkert eldheitur á móti hvalveiðum, þá er ég samt á móti þeim. Þess vegna er ég nú á málinu vegna þess að ég tel að það muni undirbyggja það að við munum ekki veiða hval.

Skýrslan sem var gerð 2010 var gerð með nokkrum fyrirvörum, eins og ég nefndi í framsögunni, það kynnu einhverjir hlutir að breytast. Það má segja að eiginlega öll þau skilyrði sem sú nefnd eða sá starfshópur gaf sér séu uppfyllt í dag, þannig að það er fullt tilefni til endurskoðunarinnar. Ég held að við eigum að ráðast í hana. Við hv. þingmaður erum sammála um það og ég treysti að þessi vinna verði sett í gang og skili niðurstöðum og í framhaldi af því sé hægt að móta nýja stefnu.