149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að því að meta hvaða dýr séu einhvern veginn „verðmætari“ en önnur þá er ég ekki með mjög góð svör við því í sjálfu sér, nema einmitt einhverjar tilfinningar. En ég hef ákveðna hluti til þess að miða við. Mér er alveg sama þótt við slátrum pöddum í milljóna eða milljarða vís til ætis, að því gefnu að nóg sé til af þeim, mér væri alveg sama. Ég myndi aldrei vera á móti því, efast stórlega um það. Ég er hins vegar alltaf á móti mannakjötsáti sem dæmi. Þegar ég hugsa um hvaða dýr ég myndi alls ekki vilja veiða eða rækta til eldis, þá hugsa ég t.d. um simpansa eða bavíana, því mér finnst þeir einfaldlega of líkir okkur, þeir eru of nálægt okkur, þeir eru of skyldir. Þeir eru einhvern veginn of mikið homo sapiens til þess að ég myndi vilja leggja mér þá til munns. En það er eiginlega eina leiðsögnin sem ég hef í sjálfu sér, eins frumstæð kannski og hún er. En hvalir þykja vera gáfuð dýr og eitthvað þannig, en eins og ég segi, ég er ekki alveg með svarið við því.

Ég er heldur ekki með það á hreinu hvernig ég get útskýrt betur það sem ég fór yfir í ræðu minni, nema kannski að því leyti þegar kemur að andstöðu við kjötáti af siðferðilegum ástæðum. Þótt ég sé ekki þar sjálfur enn þá, ég vil helst borða bara kjöt ef ég segi alveg eins og er, þá ber ég mikla virðingu fyrir þeirri skoðun. Mér leiðist afskaplega þegar fólk einhvern veginn fussar yfir grænmetisætum sem hafna dýraáti á siðferðilegum grundvelli. Ég myndi miklu frekar vilja vera kjötæta sem hættir að borða kjöt og byrjar að borða eitthvað annað, heldur en grænmetisæta sem allt í einu byrjar að borða kjöt vegna þess að þá er manni allt í einu orðið sama um eitthvað sem manni var áður ekki sama um.

Ég veit ekki alveg hvort þetta útskýrir eitthvað betur það sem ég fór yfir áðan. (Forseti hringir.) En mér finnst mikilvægt að við virðum svolítið tilfinningarök (Forseti hringir.) þegar kemur að siðferði, vegna þess að þau eru byggð á tilfinningum held ég. Við höfum ekki tíma til þess að fara út í rót siðferðis, en ég vona að þetta varpi einhverju ljósi á málið.