149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég hef sagt að hv. þingmaður hefði ekki mikinn áhuga á málinu hef ég mismælt mig. Ég held að hv. þingmaður hafi örugglega mjög mikinn áhuga á þessari þingsályktunartillögu sem hann mælti fyrir og ætla ekki að gera honum neitt annað upp. En það var þessi umræða um hversu mikilvægt væri að banna hvalveiðar. Ég lét að því liggja að það væri ákveðin stríðnistónn, sem er stundum bara gaman að, við getum alveg gantast og strítt hvert öðru aðeins, í því að velja hæstv. forsætisráðherra til að fara fyrir málinu. Jú, hæstv. forseti er verkstjóri ríkisstjórnarinnar, en að sama skapi má spyrja: Hvar lægju mörkin ef við myndum vilja endurskoða einhverja mikilvæga stefnu okkar Íslendinga? Hvað með heilbrigðismál eða lýðheilsumál sem er málefni sem flæðir yfir marga málaflokka? Ættum við þá að fela forsætisráðherra að endurmeta slíka stefnu? Rök mín voru fyrst og fremst sú, virðulegur forseti, að með þeim rökum sem hv. þingmaður færði fram hér áðan þá gætum við í rauninni falið hæstv. forsætisráðherra nánast allt. Ég hygg að flutningsmenn hafi valið mjög sérstaklega þann ráðherra sem átti að fara fyrir þessu ákveðna máli. Það er bara mín kenning, hvort sem hv. þingmaður telur mig hafa rétt fyrir sér eða ekki í þeim efnum.

Mér þykir engu að síður, hv. þingmaður og virðulegur forseti, full ástæða til þess að skoða hvalveiðar okkar í samhengi við aðrar veiðar því að við eigum margt sameiginlegt með þessum þjóðum sem ég nefndi. Það er mikil hefð fyrir hvalveiðum hér á Íslandi. Ég ítreka enn og aftur: Ég hef engan sérstakan áhuga á hvalveiðum eða hvalkjöti með einum eða öðrum hætti, þetta snýst um þá mikilvægu afstöðu að við séum sjálfstætt ríki og við getum (Forseti hringir.) hagað okkar málum í samræmi við okkar ákvarðanir og nýtt okkar náttúruauðlindir, svo lengi sem það sé með sjálfbærum hætti.