149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, margur heldur sig mig, eða mig sig, varðandi þetta með stríðnina, það getur vel verið að þingmenn taki upp á því að vera stríðnir, en málið er engu að síður alvarlegt og okkur er ekki nein sérstök stríðni í hug. Hins vegar er ríkisstjórnin samsett af þremur flokkum, býsna keimlíkum, enda eru þeir meira og minna sammála um alla hluti. Við urðum nú vitni að því í umræðu og atkvæðagreiðslu um frumvarp til fjárlaga, þar slitnaði ekki á milli í nokkru einasta máli. Þó leynast svona mál sem maður hélt að væri hugsanlega örlítill ágreiningur um og akkúrat þar á meðal er þetta mál. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að vita hvaða hug ríkisstjórnin hefur í þessum málum öllum. Þess vegna er eðlilegt að beina fyrirspurninni í þennan farveg, enda hefur forsætisráðherrann í hendi sér hvaða ráðherra hann hefur í ríkisstjórninni, hvaða ráðuneyti hann hefur í ríkisstjórninni og hvernig verkaskiptingin er í ríkisstjórninni.

Við erum einmitt að fjalla núna um skipan verkefna í ráðuneyti og þar ræður forsætisráðherrann öllu, þannig að ég vorkenni honum þá ekkert ef hann þarf að fá álit frá sjávarútvegsráðherra eða nýsköpunarráðherra. Hann spjallar bara við þá og biður um að bæta inn smá bút í sína vinnu, það er ekkert vandamál.