149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[18:07]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um tillögu sem snýst um að endurskoða hvalveiðistefnu og leita upplýsinga. Forsætisráðherra er hér kvaddur til, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hafði á orði áðan, vegna þess að ég hygg að hvalveiðar séu ekki bara spurning um hvalveiðar. Þetta er stórpólitísk spurning sem varðar svo margt, t.d. stöðu og orðspor Íslendinga í alþjóðasamfélaginu. Þetta varðar ýmsar atvinnugreinar aðrar en hvalveiðar og þess vegna hygg ég að það sé eðlilegt að fá að kveðja til forsætisráðherrann.

Ég held að það þurfi ekki að hafa mörg orð um almenningsálitið í heiminum um þessar veiðar og álit annarra þjóða á þeim. Ég held að það sé mjög á brattann að sækja fyrir hvalveiðisinna að hafa áhrif á það og ég held að ekki þurfi heldur að hafa mörg orð um þau áhrif sem hvalveiðar hafa á orðspor Íslendinga, en upplýsingar eru alltaf nauðsynlegar, þær eru alltaf til góðs.

Það er stundum talað eins og hvalveiðar séu nokkurs konar þjóðhættir, þær séu þjóðleg iðja og það er jafnvel látið liggja að því að með því að leggjast gegn hvalveiðum sé verið að leggjast einhvern veginn gegn lífsháttum veiðimannasamfélags við nyrsta haf, að hér séu nokkurs konar frumbyggjaveiðar. Ég held að það sé á misskilningi byggt. Við Íslendingar höfum ekki langa sögu eða hefð um hvalveiðar. Við höfum hins vegar langa hefð um hvalreka. Margbrotnar reglur giltu um hvalreka eins og kemur fram t.d. strax í Grágás, elstu lögbók Íslendinga. Hins vegar voru hvalveiðar stundaðar við Ísland fram eftir öldum, sérstaklega af Böskum og svo Norðmönnum, allt þar til að Íslendingar settu bann við hvalveiðum hér við land árið 1915. Ég held raunar að ég megi segja að það sé fyrsta hvalveiðibann sem var sett á í heiminum. Markvissar og skipulagðar veiðar Íslendinga á hval hefjast svo ekki fyrr en í kringum árið 1935 þannig að ef við Íslendingar lítum á hvalveiðar sem frumbyggjaveiðar er kannski hægt að segja að það hafi tekið þessa frumbyggja 1000 ár að hefja veiðarnar.

Árið 1948 er Hvalur hf. stofnaður og það var eins og við vitum mjög öflug starfsemi þess félags meðan enn var markaður fyrir hvalaafurðir. Sú tíð er nú að mestu liðin. Þessar veiðar virðast stundaðar af einhvers konar þrjósku og ætlaðar til þess, eins og fram hefur komið í umræðum hér, að láta ekki segja sér fyrir verkum, vera sjálfstæð þjóð hvað sem á gengur og hvað sem það kostar, þetta séu sem sé nokkurs konar þjóðháttaveiðar, grundvallaratriði í íslenskri sjálfsmynd og íslenskri lífsafkomu. Þannig er það samt ekki. Ég ætla ekki að fara að rekja hér frekar sögu hvalveiða við Ísland. Ég bendi einungis á að það er hæpið að tala um þessar veiðar í sömu andrá og við tölum um grindhvalaveiðar Færeyinga eða ef við tölum um selveiðar á Grænlandi. Þetta er ekki stór þáttur í lífsafkomu okkar og sjálfsmynd. Þetta er utan við það.

Á köflum virka hvalveiðar á mann dálítið eins og veiðar á stórum dýrum, eins og á fílum eða jafnvel ljónum í Afríku, og menn láti síðan mynda sig með bráðina. Þetta heitir á erlendum tungum „trophy“, þ.e. minjagripur, þetta eru nokkurs konar minjaveiðar eða minjagripaveiðar. Kannski má líka kalla þetta sæmdarveiðar. Einhvern veginn virka þessar hvalveiðar dálítið á mann eins og svona veiðar, frekar en að þessar veiðar séu beinlínis hefðbundinn atvinnuvegur sem sé iðkaður til að hagnast á honum.

Það liggur ljóst fyrir að fyrir langreyðarkjöt er aðeins markaður í Japan og markaðsaðgangur fyrir hvalkjöt í Japan hefur verið mjög erfiður vegna lítillar eftirspurnar. Japönsk stjórnvöld hafa ekki sýnt því mikinn áhuga að þetta kjöt sé flutt inn. Það hefur gengið upp og ofan að koma því á markað þar og eins og við vitum er það að flytja kjötið nánast eins og um sé að ræða nokkurs konar vopnaflutninga.

Kristján Loftsson hefur meira að segja viðurkennt þetta. Hann sagði í viðtali við Morgunblaðið þann 25. febrúar árið 2016, með leyfi forseta:

„Ef við hefðum vitað hvað var í vændum í Japan þegar við hófum aftur hvalveiðarnar 2009, eftir 20 ára hlé, hefðum við aldrei byrjað aftur.“

Kristján nefndi hins vegar ekki í þessu viðtali að alþjóðleg viðskipti með hvalkjöt hafa verið bönnuð samkvæmt CITES-samningnum sem er samningur um alþjóðaverslun með afurðir dýra í útrýmingarhættu. Langreyður hefur verið á heimslista yfir dýr í útrýmingarhættu. Hvort sem við vefengjum það eða ekki hefur verið litið á verslun með hvalkjöt á alþjóðavísu nánast eins og verslun með fílabein.

Úr því að talið berst að verslun með kjöt er vert að segja að ekki lýgur Bændablaðið. Í frétt í því 16. apríl árið 2014 kemur fram að hvalveiðar Íslendinga hafa valdið því að íslenskt lambakjöt var ekki auglýst í Whole Foods verslununum í Bandaríkjunum árið áður og því hafi markmið um söluaukningu frá árinu 2012 ekki gengið eftir. Þetta kom fram hjá Ágústi Andréssyni, formanni Landssamtaka sláturleyfishafa, á aðalfundi sauðfjárbænda árið 2014. Þannig er samhengi milli hvalveiða þessa fyrirtækis, Hvals hf., og bakslags í markaðssetningu á íslensku lambakjöti í Bandaríkjunum.

Almennt talað takast kannski á í þessu máli tvenns konar sjónarmið, annars vegar það lífsviðhorf sem kveður á um að mönnum sé heimilt að veiða það sem þá lystir og bara næstum því skylt að gera það, að dýralíf og náttúrufar sé manninum til ráðstöfunar og nytja eins og honum þykir henta, og hins vegar það lífsviðhorf að horfa ekki á manninn sem herra jarðarinnar heldur hluta af vistkerfi jarðar og hann þurfi þá sífellt að hafa í huga hvernig það sem hann gerir og aðhefst hefur áhrif á þetta vistkerfi. Samkvæmt þessari sýn hefur allt líf gildi og verðmæti í sjálfu sér, utan við manninn, og manninum (Forseti hringir.) skylt að hafa það í huga og virða það. Það er viðhorf (Forseti hringir.) sem ég held að okkur öllum sé líka skylt að virða þegar við hugleiðum þessar veiðar.