149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[18:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að láta þessum ræðum mínum í dag lokið, en ég hygg að hv. þingmaður hafi verið að vísa aðeins í orð mín og ég biðst afsökunar að ég datt örlítið út, en ég held að hann hafi verið að velta þessu fyrir sér þegar ég líkti þessu við Grænland og Færeyinga. Er það ekki rétt skilið hjá mér? Hann vildi meina að það væri ekkert mikið líkt með þessu.

Um það vil ég segja að ég hef fullan skilning á því að þetta eru ekki algjörlega sambærileg mál. Ég er alveg sammála þingmanninum þegar kemur að því. En þá langar mig líka að segja það, vegna þess að ég hef tekið það hlutverk að mér eftir setu mína í Vestnorræna ráðinu að vera einskær baráttumaður fyrir sjálfstæði Færeyinga og Grænlendinga og fyrir þeirra lífsviðurværi og viðurkenningu þeirra í alþjóðasamstarfi, að ég er nokkuð viss um að þessum ágætu þjóðum þykir stuðningur okkar við þeirra veiðar mjög mikilvægur. Ég hygg að þeim þyki líka mjög mikilvægt að við, nú nota ég aftur sama orðalag, stöndum í lappirnar gagnvart áskorunum sem koma utan frá um að hætta hvalveiðum, að því gefnu að þær áskoranir séu ekki byggðar á vísindalegum grunni.

Hv. þingmaður notaði orðið hvalveiðisinnar og taldi að það fækkaði stöðugt í þeim hópi. Þá ætla ég að ítreka það að ég ætla ekki að flokka mig sem hvalveiðisinna frekar en ég er virkjunarsinni. Hugmyndir mínar og það sem ég var að reyna að færa rök fyrir áðan gengu einfaldlega út á það að mér finnst mjög mikilvægt að þegar við tökum svona ákvarðanir þá byggi þær á einhverjum rökum, raunverulegum vísindalegum rökum, annaðhvort um áhrif á stofninn, sem er held ég mikilvægasti þátturinn, eða mikilvægi (Forseti hringir.) út frá öðrum atvinnugreinum, en ekki tilfinningum til ákveðinna dýrategunda umfram aðrar.