149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[18:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég kunni að vera ósammála hv. þingmanni er kemur að því að við eigum að taka ákvarðanir um nýtingu ákveðinna dýrastofna út frá því hvort einhver hefð sé fyrir því. Ef við tökum Grænlendinga og Færeyinga sem dæmi þá eiga Grænlendingar mjög erfitt með að rækta annan mat og þeir eru mjög vanir því að veiða villt dýr. Það er líka þannig að aðstæður á Grænlandi, efnahagur og annað, kalla mjög á það. Í Færeyjum er það ekki svo. Færeyingar eru á blússandi siglingu og þar er hagvöxtur mikill og smjör drýpur af hverju strái, alla vega eins og stendur. Þeir hafa engu að síður haldið áfram grindhvalveiðum sínum sem eru auðvitað fyrst og fremst út frá einhvers konar hefð.

En ég held að það sé mikilvægt að horfa á veiðar og nýtingu dýra fyrst og fremst út frá stöðu stofnanna hverju sinni og rétt þjóða til að nýta slíkt. Hér er ákveðið fyrirtæki nefnt í þessari umræðu og ég hef í raun enga afstöðu til þess fyrirtækis. Í mínum huga er það bara einhver aðili sem er að veiða vegna þess að leyfi eru til staðar fyrir þá og ég geri ráð fyrir að það sé mjög dýrt að byggja upp báta og annað til að vinna hval.

En einhvers konar verksmiðjuframleiðsla — þá langar mig aðeins að vísa í það sem ég var að fara yfir hér áður í ræðu og andsvörum. Þegar horft er til matvælaframleiðslu og til veiða á villtum dýrum og svo aftur á framleiðslu á mat, hvort sem það er svína- eða kjúklingabú eða laxeldi eða hvað það er, þá held ég að það sé líka ágætt að velta fyrir sér kolefnissporum og umhverfisþáttum í þessum efnum. Það er kannski það sem ég var að tala um í stóru myndinni, mikilvægi þess að horfa á stóru myndina.