149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[18:24]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er hjartanlega sammála því að þetta snýst um það að við eigum að vega og meta alla hagsmuni sem koma að þessu máli og síðan tökum við ákvarðanir á grundvelli þess. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þingmanni, að það er blússandi góðæri og drýpur smjör af hverju strái í Færeyjum, enda nota Færeyingar til að mynda veiðigjöld til að fjármagna samfélag sitt.

Tilfinningarök — hv. þingmaður vék að tilfinningarökum og það er alveg rétt að við megum ekki bara láta stjórnast af tilfinningarökum. En mér hafa virst mestu tilfinningarökin í málinu vera einmitt þau sem snúa að því að Íslendingar hafi sem þjóð sérstakan heilagan rétt til að stunda hvalveiðar. Orðið sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson notaði áðan, þjóðernisþrjóskan — það eru mestu tilfinningarökin í málinu.