149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[18:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér er eiginlega skapi næst að endurtaka einfaldlega það sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé fór hérna yfir, ég var svo hjartanlega sammála ræðu hans. Mér fannst hún góð og rökföst.

Mig langaði líka að nefna þetta með tilfinningarökin sem hefur aðeins verið fjallað um hérna. Án þess að vilja fara alveg út í undirstöður siðfræðinnar, enda væri það meira verk og þessi ponta sjálfsagt ekki endilega vettvangurinn, get ég a.m.k. sagt fyrir mig að andstaða mín við pyndingar, þrælkun og dauðarefsingar er mestmegnis tilfinningaleg. Mér finnst þessir hlutir ógeðfelldir og ég vil ekki að þeir séu viðurkenndir í samfélaginu. Ég gæti sjálfsagt alveg fært einhver efnahagsleg rök fyrir því, ég gæti eflaust tínt til einhverjar vísindalegar kannanir sem myndu hjálpa mér að sannfæra aðra um að þetta væru slæmir hlutir, en þegar allt kemur til alls er það ekki það sem ég byggi afstöðu mína gagnvart þessum hlutum á. Mér finnst þeir bara ógeðslegir og ég vil ekki sjá þetta. Ég vil ekki að þetta sé til.

Í þeim skilningi finnst mér einmitt tilfinningarök alveg geta átt þátt að máli. Það útilokar ekki hin rökin, það útilokar ekki vísindaleg og efnahagsleg rök, enda styð ég málið og finnst sjálfsagt að gera þessa könnun, alveg óháð því hvað mér persónulega finnst um hvalveiðar, ekki bara vegna þess að ég tel það málefnalegt til að sannfæra aðra sem enn eru ósammála mér heldur líka vegna þess að mér finnst rétt að hafa það allt saman til hliðsjónar þegar endanleg ákvörðun er tekin.

Þó að ég sé á móti hvalveiðum akkúrat núna og telji mig hafa nægar forsendur til að móta mér þá afstöðu hef ég t.d. ekki lagt til að þær verði bannaðar vegna þess að mér finnst rétt að svona hlutir liggi fyrir áður en að löggjafarsamkunda eins og Alþingi tekur slíka ákvörðun. Mér finnst það eðlileg málsmeðferð og málefnalegur liður í því að leyfa öllum að taka sína eigin ákvörðun á grundvelli þeirra gilda og forsendna sem hver og einn kýs.

Nú er það með mig og þessa afstöðu eins og afstöðu mína yfirleitt — ég veit ekki alveg hvort ég þori að segja alltaf en a.m.k. langoftast — að ný gögn geta alltaf breytt henni. Ég er alltaf til í að skipta um skoðun ef ég séð einhver ný gögn eða ný rök sem hnekkja hinu eldra. Vel má vera að eitthvað komi fram í könnun sem yrði afleiðing af þessari þingsályktun ef tillagan verður samþykkt eða þeirri könnun sem ríkisstjórnin er að láta gera sem myndi breyta þessari skoðun minni, en skýrslan 2010 kom með þá niðurstöðu að þetta væri enn efnahagslega hagkvæmt, hvernig sem það var orðað, að ekkert væri því til fyrirstöðu að við gerðum þetta, en þrátt fyrir þá niðurstöðu er ég á móti hvalveiðum. Rök um að þetta sé efnahagslega hagkvæmt eða hvort ríkisstjórn eða ráðherra eða starfshópur hafi vegið og metið ímyndina út á við á móti efnahagslegum bata á einhvern ákveðinn hátt er ekki í sjálfu sér forsendan sem ég nota sjálfur til að mynda mér afstöðu gegn hvalveiðum.

Forsenda mín er sú að ég tel að almennt eigi fólk og þjóðríki að koma fram þannig að það sé til fyrirmyndar. Mér finnst sjálfsagt að taka tillit til viðbragða annarra. Ég segi stundum við fólk og sjálfan mig: Þú ræður alveg sjálfur hvað þú gerir en þú ræður því ekki hvernig aðrir bregðast við.

Ég tel það ekki á nokkurn hátt varhugavert þegar einstaklingur kýs sjálfur að tileinka sér hegðun eða orðfæri beinlínis til að láta einhverjum öðrum líða betur en ella. Mér finnst það sjálfsagt og mér finnst það eðlileg hegðun. Svo geta samskipti fólks farið út í einhvers konar kúgunarsamband þar sem t.d. fólk beitir andlegu eða tilfinningalegu ofbeldi og sannfærir fólk með þeim hætti. Ég tel ekki neitt slíkt vera í gangi hérna. Ég held að andstæðingar hvalveiða séu andstæðingar hvalveiða á afskaplega einlægum forsendum. Ég hef reyndar engar áhyggjur, svo ég segi það bara, af því að við myndum ofveiða hvali en afstaðan til dýradráps er réttilega misjöfn og réttilega er umdeilt hvort við eigum að drepa hitt eða þetta dýrið. Mér finnst það alveg eðlilegt.

Mér finnst líka mjög leiðinlegt að hafa ekki meiri tíma til að ræða þessi mál vegna þess að mig langaði að fara aðeins yfir þetta með sjálfstæða þjóð sem hefur fullan rétt á að nýta auðlindir sínar. Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Ég (Forseti hringir.) hef ekki tekið eftir neinum sem stingur upp á því að við framseljum þessa ákvörðun til erlendra afla, við eigum að taka hana sjálf sem sjálfstæð þjóð, en það þýðir þá líka að við hljótum að geta tekið ákvörðun sem þó miðar út frá okkar eigin væntingum til þess hvernig okkar ímynd sé gagnvart öðrum sem við gætum hugsanlega verið ósammála um einhver efnahagsleg atriði.