149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[10:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um veiðigjald. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta sem tíundaður er í nefndarálitinu. Við höfum haldið 11 fundi um þetta mál sem kom inn í lok september og fengið til okkar gesti frá 25 aðilum. Frá hverjum aðila komu fleiri en færri svo að málið hefur fengið mikla og góða umfjöllun í atvinnuveganefnd og fjölda umsagna. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlög um veiðigjald. Gildandi lög eru frá árinu 2012, þeim hefur verið breytt nokkrum sinnum síðan og hafa fleiri aðferðir en ein verið nýttar til að ákvarða veiðigjaldið.

Í frumvarpi þessu er lagt til að reiknistofn veiðigjalds hvers árs byggist á afkomu við veiðar á hverjum nytjastofni um sig. Lagt er til að gjaldhlutfall veiðigjalds af reiknistofni verði 33% sem er sama gjaldhlutfall og samkvæmt gildandi lögum. Lagt er til að veiðigjald verði ákveðið í lok hvers árs fyrir næsta almanaksár í stað þess að vera ákvarðað í ágúst fyrir komandi fiskveiðiár. Lagðar eru til breytingar til að einfalda stjórnsýslu veiðigjalds sem felast í því að verkefni veiðigjaldsnefndar verða að mestu færð til embættis ríkisskattstjóra og sömuleiðis verði sérstök þingmannanefnd um veiðigjald lögð niður.

Einnig er í frumvarpinu lagt til að svokallað frítekjumark verði óbreytt, þ.e. kveðið verði á um að hver gjaldskyldur aðili greiði 20% af fyrstu 4,5 millj. kr. álagðs veiðigjalds og 15% af næstu 4,5 millj. kr. álagningar. Meiri hlutinn leggur fram breytingartillögu við 6. gr. um frítekjumark í því skyni að koma enn frekar til móts við ólík áhrif gjaldsins á smærri og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi sem og á byggðarlög. Samkvæmt gildandi lögum er reiknistofn veiðigjaldsins ákvarðaður á grundvelli hagnaðar fyrir skatt (EBT) í sjávarútvegi samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu, reiknað annars vegar fyrir botnfisk og hins vegar fyrir uppsjávarfisk. Vegna tímatafar við útgáfu skýrslunnar er með þessu byggt á a.m.k. tveggja ára gömlum upplýsingum. Með aðferð frumvarpsins um ákvörðun á reiknistofni er leitast við að girða fyrir óeðlilegar sveiflur, en aðferð gildandi laga er m.a. verulega háð gengissveiflum.

Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins skulu eigendur, útgerðaraðilar og rekstraraðilar skila greinargerð um tekjur og kostnað af veiðum fiskiskipa og úthaldi þeirra, svo sem nánar greinir í ákvæðinu. Ákvæði 90. og 92.–94. gr. laga um tekjuskatt gilda um öflun og skil upplýsinga eftir því sem við á. Ef upplýsingum er ekki skilað, þær eru ófullnægjandi eða óglöggar eða talin þörf á frekari upplýsingum skal ríkisskattstjóri skora á viðkomandi að bæta þar úr. Sé áskorun ekki sinnt áætlar hann tekjur og kostnað. Fiskistofu er heimilt að miðla upplýsingum til embættis ríkisskattstjóra úr aflaskýrslum og vigtar- og ráðstöfunarskýrslum og skal vera embættinu til ráðuneytis um þau gögn sem stofnunin lætur því í té. Í 5. mgr. sömu greinar er kveðið á um að hafi útreikningur reiknistofns reynst verulega rangur verði heimilt að endurákvarða gjaldið samkvæmt ákvæðum 4. gr. um fjárhæð veiðigjalds til allt að síðustu tveggja veiðigjaldsára þótt komið hafi í ljós að álagning hafi verið of lág. Meiri hlutinn leggur til orðalagsbreytingu við 3. mgr. 5. gr. og að við bætist ákvæði um sérstakt gjald sem ríkisskattstjóri leggur á ef tekjur eru vantaldar eða kostnaður oftalinn sem nánar verður gerð grein fyrir síðar í áliti þessu.

Aflaverðmæti hvers nytjastofns fyrir hvert fiskiskip byggist á upplýsingum sem tíundaðar verða í greinargerð þeirri um aflaverðmæti og rekstrarkostnað sem fylgir skattframtölum rekstraraðila í sjávarútvegi. Til að gera framkvæmd þessa auðveldari fyrir eigendur fiskiskipa verður leitast við að árita upplýsingar í greinargerðina þegar hún er opnuð með skattframtali. Sérstakrar ákvörðunar er þörf um meðhöndlun vinnsluskipa vegna vinnslu afla um borð og á grundvelli lauslegs samanburðar við afkomu við veiðar á óunnum afla er lagt til að skráð aflaverðmæti frysts afla verði lækkað um 10%. Að auki er lagt til að verðmæti alls uppsjávarafla verði hækkað um 10% í þessum reikningum þar sem fyrirliggjandi gögn um aflaverðmæti botnfisksafla og uppsjávarafla eru ekki að öllu leyti sambærileg vegna ólíkra aðstæðna sem uppi eru bæði við veiðar og vinnslu þeirra tegunda sem um ræðir. Þessu svipar í raun til þess fyrirkomulags sem er samkvæmt gildandi lögum þar sem reiknistofn veiðigjalds í uppsjávartegundum er nokkru rýmri en á botnfiskstegundir þar sem stærri hluti af hagnaði við vinnslu uppsjávarafla er með í stofninum.

Í mars 2018 gaf endurskoðunarskrifstofan Deloitte út skýrslu um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja samkvæmt sameiginlegri beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formanns atvinnuveganefndar. Í skýrslunni kom fram að tekjur í sjávarútvegi hafa dregist saman um 25 milljarða árið 2016 eða um 9%. Því tekjutapi hafi verið mætt að hluta með lækkun kostnaðar, einkum hjá stærri félögum, og hafi EBITDA lækkað um 15 milljarða kr., um 22%. Að hluta megi rekja þetta til verulegs samdráttar í afla árið 2016, um tæp 19% frá fyrra ári, einkum vegna loðnubrests. Í skýrslu Deloitte sagði enn fremur að útlit væri fyrir að EBITDA-afkoman myndi versna nokkuð á rekstrarárinu 2017, m.a. vegna óhagstæðrar þróunar ytri hagstærða. Þannig hafi verðlag sjávarafurða lækkað verulega í íslenskum krónum og launavísitala hækkað. Lækkun olíuverðs hafi haft nokkuð jákvæð áhrif á afkomu ársins 2016 en á árinu 2017 hafi olíuverð tekið að hækka að nýju. Því geti EBITDA-afkoma ársins 2017 hafa lækkað um 20–37% frá fyrra ári.

Sjálfstæðum atvinnurekendum í sjávarútvegi hefur fækkað ört á undanförnum árum. Samkvæmt tölum Fiskistofu hefur útgerðum sem ráða yfir aflahlutdeildum fækkað úr 946 í 382 frá upphafi fiskveiðiársins 2005–2006 til upphafs yfirstandandi fiskveiðiárs, þ.e. þeim hefur fækkað um tæp 60% á 12 árum. Til þessa teljast bæði útgerðir með aflamark og krókaaflamark en langstærstur hluti þessarar breytingar liggur í smábátaútgerðinni. Á fiskveiðiárinu 2013–2014 voru krókaaflamarksbátar 354 en við upphaf yfirstandandi fiskveiðiárs voru þeir orðnir 258. Hefur þeim því fækkað um fjórðung á fjórum árum. Samtímis fór hlutdeild 50 stærstu handhafa krókaaflahlutdeildar vaxandi og er nú orðin 83%. Raunar virðast margir krókaaflamarksbátar ýmist hafa litlar aflaheimildir eða ekki í rekstri. Auk innri og ytri aðstæðna er líklegt að lagabreyting frá árinu 2013 hafi hér haft sitt að segja en þá var stærðarmörkum bátanna lyft úr 15 brúttótonnum í 15 metra hámarkslengd og 30 brúttótonn, sem jók eftirspurn eftir krókaaflamarki.

Byggðastofnun hefur skoðað breytingu á afkomu nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja sem taka þátt í nýtingu aflamarks Byggðastofnunar. Tekjur þeirra sjávarútvegsfyrirtækja minnkuðu verulega á milli áranna 2016 og 2017. Það er í samræmi við tölur frá Hagstofu Íslands sem telur að útflutningsverðmæti sjávarafurða á milli áranna 2016 og 2017 hafi minnkað um ríflega 15%. Líklega má yfirfæra þessar upplýsingar á önnur fyrirtæki af svipaðri stærð. Sjávarútvegsfyrirtæki standa missterk og rekstrarskilyrði þeirra eru mjög misjöfn. Í þeim tilvikum þar sem veiðigjald verður mjög íþyngjandi og það bætast jafnvel á erfið rekstrarskilyrði þurfa fyrirtæki að bregðast við og hagræða í rekstri. Í einhverjum tilvikum getur það þýtt sölu veiðiheimilda sem getur valdið miklum erfiðleikum, einkum í litlum sjávarplássum þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki eru burðarásinn í viðkvæmum sjávarbyggðum sem reiða sig að mestu á sjávarútveg. Jafnframt er það líklegt til að leiða til aukinnar samþjöppunar veiðiheimilda. Þetta kemur fram í minnisblaði frá Byggðastofnun.

Við umfjöllun um málið í nefndinni var nokkuð rætt um þá aðstöðu þegar sjávarútvegsfyrirtæki stundar bæði veiðar og vinnslu sjávarafurða. Í viðskiptum slíkra aðila er, samkvæmt því sem fram kom fyrir nefndinni, iðulega stuðst við viðmiðunarverð Verðlagsstofu skiptaverðs sem jafnan er lægra en markaðsverð á fiskmörkuðum. Vinnsla slíks sjávarútvegsfyrirtækis kann því að standa betur að vígi í samkeppni við fiskvinnslu án útgerðar og sömuleiðis geta sjávarútvegsfyrirtæki sem stunda ekki fiskvinnslu og selja afla á markað staðið verr að vígi gagnvart fyrirtækjum í samþættri starfsemi. Nefndin fjallaði um ákvörðun verðs sjávarafla í tilvikum sem þessum og spurningar um verðmyndun og álitaefni um svonefnda milliverðlagningu sem um er fjallað í 57. gr. laga um tekjuskatt. Ekki var efast um úrræði sem embætti ríkisskattstjóra hefur að lögum, auk þess sem embættið hefur aðgang að gögnum til að gera samanburð á verði. Hins vegar kom jafnframt fram fyrir nefndinni að milliverðlagning sé vandasamt verkefni, erfitt geti reynst að finna út rétt verð, einkum þegar ekki skeikar miklu, auk þess sem það tekur tíma að fara í gegnum slíkt mál fyrir stjórnvöldum. Eigi síðar en 1. desember ár hvert skal ríkisskattstjóri samkvæmt frumvarpinu gera tillögu til ráðherra um fjárhæð veiðigjalds fyrir nytjastofn. Með frumvarpinu er embætti ríkisskattstjóra heimilað að taka til sérstakrar athugunar ef vísbending er um að óeðlileg milliverðlagning sé fyrir hendi innan samþættra sjávarútvegsfyrirtækja eða í uppgjöri innan samþætts sjávarútvegsfyrirtækis. Meiri hlutinn telur að með þessu sé brugðist með tilhlýðilegum hætti við þeirri umræðu sem var um þessi málefni í nefndinni sem annars staðar.

Meiri hlutinn bendir á að Verðlagsstofa skiptaverðs fylgist með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðlar að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna og fer um störf hennar samkvæmt lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Meiri hlutinn telur mikilvægt að störf Verðlagsstofu verði styrkt og bendir á nokkur atriði sem komu fram við meðferð málsins, t.d. að þörf sé á að endurskoða ákvæði 3. gr. laga um stærðar- og gæðaflokka sem og að skýra valdheimildir í 6. gr. laganna. Nefndinni bárust einnig athugasemdir um það í fyrsta lagi að sanngjarnara væri að úrskurðir Verðlagsstofu giltu aftur í tímann, í öðru lagi að Verðlagsstofa gæti ekki komið í veg fyrir sölu tiltekins afla þó svo að lægra verð hefði verið notað til viðmiðunar við uppgjör og í þriðja lagi að brúttórúmlestastærð allra báta og skipa ætti að vera opinberlega skráð.

Við umfjöllun um málið komu fram athugasemdir við það að þeir sem afla þangs og þara skuli samkvæmt frumvarpinu greiða veiðigjald til ríkisins enda greiða þeir nú þegar eigendum sjávarjarða fyrir aðgang að fjörum. Meiri hlutinn bendir á að einungis hluti nýtingar er í fjöru eða innan netlaga sjávarjarða. Einnig bendir meiri hlutinn á að með setningu laga nr. 49/2017, um breytingu á ýmsum lögum vegna öflunar sjávargróðurs í atvinnuskyni, voru lagðar auknar skyldur á stofnanir ríkisins til að vakta og rannsaka þang og þara. Við meðferð þess máls í þinginu var áréttað í nefndaráliti meiri hluta þáverandi atvinnuveganefndar að tilgangur veiðigjalds væri m.a. að mæta kostnaði við rannsóknir, eftirlit o.fl. Einnig var þá ítrekað að rannsóknir væru mikilvægar, m.a. þar sem þang og þari væru mikilvæg fyrir lífríkið. Hafrannsóknastofnun var með umræddri lagabreytingu falið að rannsaka vistkerfi tengd sjávargróðri.

Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

Lagt er til að nytjastofnar sem hafa minna aflaverðmæti en 100 millj. kr. á ári samkvæmt vegnu meðaltali næstliðinna þriggja ára myndi ekki stofn veiðigjalds. Telur meiri hlutinn að veiðigjald geti haft áhrif á hvatann til að sækja slíkar tegundir. Tegundir sem geta fallið hér undir eru t.d. blálanga, sandkoli og skrápflúra og mögulega hörpudiskurinn.

Lögð er til orðalagsbreyting á 3. mgr. 5. gr. og að við þá grein bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um sérstakt gjald sem lagt skal á gjaldskyldan aðila ef hann hefur vantalið tekjur eða oftalið kostnað. Slíkt gjald skal leggja á óháð því hvort vantaldar tekjur og/eða oftalinn kostnaður leiðir sem slíkur til leiðréttingar á reiknistofni veiðigjalds.

Lögð er til breyting á ákvæði 3. mgr. 6. gr. í þá veru að frítekjumark nemi 40% af fyrstu 6 millj. kr. álagningar hvers árs. Að mati meiri hlutans þarf að styrkja frítekjumarkið enn frekar og er með þessari breytingartillögu sérstaklega brugðist við erfiðri rekstrarstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem njóta ekki stærðarhagkvæmni stórútgerðarinnar en skapa mikla byggðafestu í sínu byggðarlagi. Minni útgerðir eru mun háðari afkomusveiflum og hefur það leitt til samþjöppunar og fækkunar starfa og byggðaröskunar.

Einnig er lögð til sú breyting að í 1. mgr. 7. gr. verði vísað til embættis ríkisskattstjóra en frá áramótum annast það embætti innheimtu opinberra gjalda.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali sem ég mun gera grein fyrir en undir þetta nefndarálit rita sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar og framsögumaður, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Njáll Trausti Friðbertsson.

Breytingartillagan hljóðar svo við frumvarp til laga um veiðigjald frá meiri hluta atvinnuveganefndar:

1. Við 3. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Nytjastofnar sem hafa minna aflaverðmæti en 100 millj. kr. á ári samkvæmt vegnu meðaltali næstliðinna þriggja ára mynda ekki stofn veiðigjalds.

2. Við 5. gr.

a. Í stað orðsins „óglöggar“ í 3. mgr. komi: ótrúverðugar.

b. Við bætist ný málsgrein er verði 4. mgr., svohljóðandi:

Komi í ljós við yfirferð greinargerðar sem getur í 3. mgr. að hún er ranglega útfyllt þannig að tekjur eru verulega vantaldar eða kostnaður oftalinn skal ríkisskattstjóri leggja á rekstraraðila sérstakt gjald sem nemur 5% af vantalinni tekjufjárhæð og/eða oftöldum kostnaði. Gjald þetta skal leggja á óháð því hvort vantaldar tekjur og/eða oftalinn kostnaður leiðir sem slíkur til leiðréttingar á reiknistofni veiðigjalds. Þá varðar engu þótt leiðrétting sé gerð síðar en tillaga er gerð til ráðherra samkvæmt 4. gr. Ákvörðun ríkisskattstjóra um álagningu þessa gjalds er kæranleg til yfirskattanefndar, samanber lög nr. 30/1992.

c. Í stað orðsins „standa“ í 4. mgr. komi: kveðið er á um.

3. 1. málsliður 3. mgr. 6. gr. orðist svo: Við álagningu veiðigjalds skal frítekjumark nema 40% af fyrstu 6 millj. kr. álagningar hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila.

4. Í stað orðsins „tollstjóri“ í 1. mgr. 7. gr. komi: ríkisskattstjóri.

5. Í stað tilvísunarinnar „7.–8. gr.“ í 3. mgr. 8. gr. komi: 6. og 7. gr.

6. Skammstöfunin „o.fl.“ í fyrirsögn 10. gr. falli brott.

Svona hljóðar það orð [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: Hið heilaga orð?) — ekki heilaga orð en [Hlátur í þingsal.] — ég veit það. (Gripið fram í.) Ég veit að þingsalurinn telur þetta vera mjög mikilvægt og nánast heilagt (Gripið fram í: Þessu verður bara ekki breytt.) en sumu verður ekki breytt þegar það er gott. En það er búin að vera mikil vinna og mikið samráð við hlutaðeigandi innan nefndarinnar á þessum tíma frá því að við fengum þetta mál til umfjöllunar. Ég tel að mætt hafi verið þeim sjónarmiðum sem komu skýrt fram varðandi áhyggjur manna af háu veiðigjaldi gagnvart þessum litlu og meðalstóru fyrirtækjum sem fengu á sig 200%, jafnvel 300% hækkun á fiskveiðiárinu 2017–2018. Það hefur leitt til enn meiri samþjöppunar og menn, margir hverjir, eru að reyna að þreyja þorrann í von um að þessi hluti af þeirra rekstrarútgjöldum endurspegli afkomu þeirra frekar en nú er.

Í þessu frumvarpi erum við líka að afkomutengja veiðigjöldin með mjög næmum hætti. Við erum að ná fram því sem unnið hefur verið að í raun alveg frá árinu 2012 þegar veiðigjöldin voru sett á sem voru þá umfangsmeiri en þau veiðigjöld sem voru sett á árið 2004 sem fyrst og fremst miðuðu að því að standa undir rannsóknum hjá Hafrannsóknastofnun á hafinu og lífríkinu í sjónum. Árið 2012 voru veiðigjöldin endurskoðuð, heildarlög um veiðigjöld, og þar var reynt að nálgast umframhagnað í greininni. En það sem á vantaði var að ná upplýsingum sem næst í tíma og að geta þá lagt á afkomutengd veiðigjöld, að veiðigjöld gætu sveiflast til, hækkað eða lækkað, miðað við afkomu greinarinnar hverju sinni. Upplýsingar um aflaverðmæti kom frá Fiskistofu og ríkisskattstjóri fær á sérstöku blaði upplýsingar um hag sjávarútvegsfyrirtækjanna og afkomu. Með því er hægt að leggja á og finna út reiknistofn fyrir afkomu hverrar tegundar sem síðan er meðaltal heilt yfir; 33% álagning á þann reiknistofn verður síðan álagning almanaksárið þar á eftir. Ríkisskattstjóri mun þá leggja það til síðari hluta árs við ráðherra miðað við þær upplýsingar sem búið er að vinna úr þeim upplýsingum sem kallað er eftir.

Ég held að allir flokkar hafi talað um að afkomutengja veiðigjöld sem mest í rauntíma og við erum komin þangað. Síðan er það pólitísk ákvörðun hverju sinni hvort við höfum það 33% af reiknistofni eða meira eða minna. Það verður alltaf pólitísk ákvörðun. En aðferðafræðina sem slíka tel ég vera komna á þann stað að við ættum, hvar í flokki sem við stöndum, að geta skrifað upp á það. Ef við viljum hafa afkomutengd veiðigjöld erum við búin að nálgast það eins og hægt er í rauntíma miðað við afkomu greinarinnar.

Það er síðan annar handleggur að þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki eru stödd annars staðar en þessi stærstu fyrirtæki sem hafa miklar aflaheimildir á sínum snærum. Þess vegna höfum við í meiri hluta atvinnuveganefndar lagt til að mæta þeim með þessum auknu frítekjumörkum og þrýsta þeim afslætti neðst sem nýtist þá best þessum litlu og meðalstóru fyrirtækjum, kemur þeim til góða og mun skipta þá verulega miklu máli. Fékk nefndin að heyra það á fimmtudaginn var hjá Landssambandi smábátaeigenda, sem var mjög sátt við þessa aðferðafræði, að verið væri að þrýsta stuðningi til þeirra sem virkilega þyrftu á honum að halda og myndi létta af mörgum þeirra áhyggjum sem sáu ekki fram á rekstrargrundvöll miðað við óbreytt veiðigjald.

Þar sem þetta hefur verið unnið mjög vel að mínu mati er ég mjög undrandi yfir því að hér liggur fyrir tillaga um að vísa málinu frá, vísa málinu af dagskrá, og leggja til að óbreytt veiðigjald verði á næsta ári, að við búum við sömu lög sem við erum búin að sjá að eru meingölluð, byggja á tveggja til þriggja ára upplýsingum. Eins og þetta liti út ef þessu máli yrði vísað frá erum við að tala um að á næsta almanaksári geti veiðigjöldin verið 12,5 milljarðar. Þá held ég að það hrikti í stoðum margra byggðarlaga sem eiga það undir að standa undir þeim veiðigjöldum, þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki, svo árið á eftir gætu veiðigjöldin dottið niður í 2,5 milljarða eða minna miðað við afkomutengingu tvö, þrjú ár aftur í tímann.

Er það þetta sem menn vilja? Eða að flagga því í breytingartillögu að ætla að fara að gjörbreyta fiskveiðistjórnarkerfinu, í breytingartillögu við veiðigjöldin? Það er óskiljanlegt hjá hv. þingmönnum sem talað hafa fyrir því að mikilvægt sé að hafa samráð og byggja á góðum undirbúningi við alla aðila sem hlut eiga að máli og samráði innan þingsins. Ef dagskrártillagan verður ekki samþykkt, að vísa málinu frá, geri ég ráð fyrir að þeir sem lögðu breytingartillöguna fram ætli að samþykkja þetta frumvarp með þessum breytingum. Hvar er þá samráðið? Hvar er allt samráðið þar? Hvar eru vönduðu vinnubrögðin þar? Hvað eru menn að tala um þar?

Er þetta popúlismi út í eitt eða hvaða ábyrgð er þarna á bak við að henda svona fram að í veiðigjöldum ætli menn að fara að breyta lögum um stjórn fiskveiða? Ætla menn að gera það bara sisvona milli 2. og 3. umr.? Ég skil ekki svona vinnubrögð og málflutning hjá fólki sem ég hefði talið að ætti að sýna ábyrgð, fólki sem talar um og kallar eftir ábyrgð í þessum málaflokki gagnvart öðrum sem hafa reynt að vinna þetta mál mjög vel og kallað inn alla þá sem hefur verið beðið um til að fjalla um þetta mál, unnið það með fjölda aðila og fengið fjölda umsagna, en nú á, án þess að kallað hafi verið eftir samráði, umsögnum eða einu eða neinu, að fara eftir blautum draumum Viðreisnar og Samfylkingarinnar um að bjóða allar aflaheimildir upp á næstu 20 árum. (Gripið fram í: Og Pírata.) Og Pírata. Þetta eru nú frjálshyggjuflokkarnir samankomnir í einn kór. Þetta er með ólíkindum. Ef þarna er ekki verið að hygla stórútgerðinni hjá svokölluðum vinstri flokki, Samfylkingunni, og hjá Pírötum með að fara í þetta uppboð sem mun bara leiða til enn meiri samþjöppunar á örfáum árum, flokkum sem vilja hvorki vera til hægri né vinstri (Forseti hringir.) — en Viðreisn gengur alltaf grímulaust fram og fær aðra til liðs við sig. [Háreysti í þingsal.] (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Hlátur í þingsal.]