149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[10:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrir þann sem greiðir 10 milljónir í veiðigjald skiptir það töluvert miklu máli. Fyrir þá sem greiða 100 milljónir í veiðigjald skiptir það miklu minna máli. Ég spyr því aftur: Var þetta metið og lagt niður á einstaka útgerðarflokka, þ.e. áhrifin? (LRM: Nei, nei.) Hækkar eða lækkar heildarinnheimtra veiðigjalda eftir breytingar meiri hlutans? Í þriðja lagi: Voru skoðuð sérstaklega áhrifin á fjárfestingar í greininni? Mun þetta draga úr eða hvetja til þess að einstaklingar sem eru í útgerð fjárfesti áfram í greininni? Ég bendi á að það er líklega hvergi jafn mikil nýsköpun í nokkurri atvinnugrein á Íslandi eins og í sjávarútvegi. Fór meiri hlutinn í að meta hvort þetta myndi draga úr eða hvetja til aukinnar samþjöppunar? Reiknuðu menn dæmið til enda? Mun þessi breyting skipta svo miklu máli að það dragi úr þeirri samþjöppun sem hv. þingmaður virðist hafa áhyggjur af?

Það er fullt af öðrum spurningum sem vakna þegar maður hlustar á hv. þingmann fara yfir nefndarálitið. Ég kem þeim ekki að núna en mun gera það í ræðu minni síðar. En hér eru þrjár, fjórar spurningar sem ég hef spurt hv. þingmann tvisvar að.