149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[10:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég bið þingheim að taka eftir því að þeirri einföldu spurningu var ekki svarað hvað liggi á Hér var andsvar notað í einhverja þvælu. Það er greinilegt að hv. þingmaður skilur ekki tillöguna og þess þá heldur hljótum við að hafa varann á þegar allar tillögur meiri hlutans eru lagðar fram, ef hv. þingmaður skilur ekki einfalda tillögu frá minni hluta í þinginu. Við förum yfir það á eftir.

En spurningunni er ekki svarað. Hvað liggur á? Auðvitað spyrjum við okkur sjálf með sósíalistann við borðsendann, eins og Vinstri græn hafa ítrekað sagt og verið stolt af, sósíalisti við borðsendann, ég skil þau vel. Hvert er erindi Vinstri grænna í ríkisstjórn annað en að ýta í gegn frumvarpi sem er í þágu útgerðarinnar, frumvarpi sem fyrst og fremst beinist að því að lækka útgjöld á útgerðina um tæpa 4 milljarða á meðan eldri borgarar og öryrkjar eru látnir bíða?

Það er sama hvað menn segja. Það eru tveir dagar síðan meiri hlutinn samþykkti lækkun á útgjöldum til eldri borgara. Menn geta ekki (Forseti hringir.) sagt að það sé ekki rétt. [Háreysti í þingsal.] Þannig er það, kæru vinir. (Forseti hringir.) Þannig er það. (Forseti hringir.) Horfist í augu við það.

Ég spyr enn og aftur og ítreka spurninguna sem hv. þingmaður hlýtur að skilja: Hvað liggur á? Ég get stafað þetta á eftir. (Gripið fram í: Gamaldags …pólitík.)

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að halda sæmilega ró sinni og virða tímamörk, þau eru knöpp.)