149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[10:44]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það væri kannski einnar messu virði að eiga orðastað við hv. formann atvinnuveganefndar um þá furðutillögu sem liggur fyrir frá m.a. hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem ætlar að fara svona 30, 40 ár aftur í tímann og búa til millifærslusjóði, líklegast millifærslusjóði þar sem stjórnmálamenn, við eða einhverjir aðrir, eiga að deila út lífsins gæðum. En látum það liggja á milli hluta.

Ég hef meiri áhyggjur af litlum og meðalstórum útgerðum sem ég veit að hv. formaður atvinnuveganefndar ber mjög fyrir brjósti. Mín spurning er: Eru þær tillögur, breytingartillögur sem meiri hluti atvinnuveganefndar er að gera varðandi frítekjumark og að það nemi 40% (Forseti hringir.) af 6 milljónum, til þess fallnar að styrkja hinar dreifðu byggðar úti á landi? Getur formaður fullyrt það hér (Forseti hringir.) í ræðustól?