149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[10:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér séum við að ræða frumvarp þar sem verða mikil tímamót við stjórnsýslu og aðferðafræði við útreikning veiðigjalda þar sem útreikningar færast nær í tíma en verið hefur og álagning og innheimta verða þá í betra samræmi við afkomu á hverjum tíma. Þetta hefur verið markmið stjórnvalda um nokkuð langt skeið, m.a. til að mæta litlum og meðalstórum útgerðum sem eiga erfiðara með að mæta sveiflum í afkomunni en stærri fyrirtækin.

En þá aðeins að aðstæðum varðandi uppsjávarfisk. Útreikningar hafa verið með öðrum hætti í botnfiski en uppsjávarfiski því þar er verðmyndunin með öðrum hætti. Þetta hefur verið viðurkennt frá 2012. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum á aðferðafræði við (Forseti hringir.) útreikninga og mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort komið hafi fram gagnrýni á þessa breytingu (Forseti hringir.) og hvort óvissa ríki um áhrifin.